Íþróttahöllin 40 ára

Kári Ellertsson, íþróttakennari í Brekkuskóla, var í leikfimi í Íþróttahöllinni fyrir 40 árum þegar …
Kári Ellertsson, íþróttakennari í Brekkuskóla, var í leikfimi í Íþróttahöllinni fyrir 40 árum þegar hann gekk í Gagnfræðaskóla Akureyrar. Myndin af honum var tekin fyrr í morgun þegar hann undirbjó íþróttakennslu í höllinni.

Á þessum degi fyrir 40 árum var Íþróttahöllin á Akureyri tekin í notkun. Íþróttahöllin hefur frá upphafi sinnt fjölbreyttri starfsemi, s.s. skólaíþróttum, íþróttaæfingum, kappleikjum, útskriftum, sýningum, veislum og öðrum viðburðum.

Í dag eru Brekkuskóli, Menntaskólinn á Akureyri og Verkmenntaskólinn á Akureyri með íþróttakennslu í Íþróttahöllinni. Þá eru íþróttafélög með æfingar og leiki þar; Íþróttafélagið Þór með handbolta og körfubolta, Knattspyrnufélag Akureyrar með handbolta og blak og Ungmennafélag Akureyrar með frjálsar íþróttir. Almenningstímar eru leigðir út eftir að skipulögðum íþróttaæfingum félaganna lýkur virka daga.

Í kjallara Íþróttahallarinnar er Golfklúbbur Akureyrar með vetraraðstöðu, Skotfélag Akureyrar með skotaðstöðu sem Bogfimideild Akurs nýtir sér einnig.

Í Íþróttahöllinni eru skrifstofur íþróttadeildar Akureyrarbæjar, Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA), Íþrótta- og ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og Skíðasambands Íslands (SKÍ). Félagsmiðstöðvar Akureyrarbæjar (FÉLAK) eru einnig með skrifstofur og starfsemi í rýmum Íþróttahallarinnar sem og Skákfélag Akureyrar.


Skjáskot úr Morgunblaðinu frá 30. desember 1982.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan