Íslandsklukkunni hringt 100 sinnum

Ásthildur hringir Íslandsklukkunni.
Ásthildur hringir Íslandsklukkunni.

Fögnum saman 100 ára fullveldi. Bæjarbúar hringdu Íslandsklukku við HA hundrað sinnum 1. desember 2018. Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri flutti ávarp.

Ágætu gestir.

Það er mikill hátíðisdagur í dag því nú fögnum við 100 ára fullveldisafmæli sem þýðir að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki. Árið 1918 er eitt af merkari árum sögunnar. Fyrri heimsstyrjöldinni lauk og spænska veikin gekk yfir 1918-1919. Þetta ár var var frostaveturinn mikli og Katla gaus í október. Ef við beinum sjónum okkar að lífinu hér á Akureyri á þessum tíma, þá bjuggu hér í lok árs 1918 ríflega 2.000 manns og þjóðarskáldið Matthías Jochumsson fylgist með bæjarbúum í sínu daglega lífi frá Sigurhæðum sem gnæfðu yfir bæinn. Akureyri var menningarbær með leikfélag og kvikmyndasýningar og atvinnulífið byggðist mikið í kringum Kaupfélag Eyfirðinga en einnig hina ýmsu einyrkja sem voru með sérhæfingu á borð við söðlasmíði, járnsmíði, skósmíði, klæðskera og fleira.

Landsmenn höfðu á sínum tíma eilítið takmarkaðan áhuga á að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem kosið var um frumvarp til nýrra sambandslaga, sem þýddi að með samþykki yrði Ísland viðurkennt fullvalda ríki í sambandi við Danmörku með einn og sama konung en lögin voru sem betur fer samþykkt. Á þessum tíma var kosningaþátttaka kvenna mun minni en karla en það hefur sem betur fer breyst til hins betra. Einhverra hluta vegna þá var kosningaþátttakan í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu hvað minnst hér á Akureyri miðað við aðra staði í landinu. Ef til vill var það fjarlægðin frá borginni, þar sem stjórnsýslan var staðsett, sem og sú staðreynd að lífskjör voru ekki sérlega góð á þessum tíma m.a. vegna fyrri heimsstyrjaldarinnar og margir höfðu fyrst og fremst um það að hugsa að eiga eitthvað að bíta og brenna.

Á sýningunni "Bæjarbragur: Í upphafi fullveldis" sem verður opnuð nú á eftir á Amtsbókasafninu og er samvinnuverkefni Amtsbókasafnsins, Héraðsskjalasafnsins og Minjasafnsins, má sjá tilvitnun í blaðið Íslending um hátíðarhöldin hérna á Akureyri 1. desember 1918 og var þeim lýst á þennan hátt:

Um hátíðahaldið hjer er fátt að segja. Fánar voru dregnir upp um allan bæ árla dags. Vígslubiskup mintist merkisdagsins á predikunarstólnum á mjög snotran hátt. Bæjarfógeti sendi stjórnarráði Íslands snjalt heillaóskaskeyti fyrir hönd sýslu og bæjarbúa. En við fögnuðum þó þessum áfanga með því að flagga um allan bæ og mér skilst að bæjarfógeti hafi sent heillaóskaskeyti til stjórnarráðsins.

Svo mörg voru þau orð.

Þessu hundrað ára fullveldisafmæli ætlum við að fagna hér í dag með því að hringja Íslandsklukku hundrað sinnum og hefur mér verið falið að hringja fyrstu hringinguna – verð að segja að ég er nokkuð spennt enda ekki á hverjum degi sem ég fæ að taka þátt í svona verkefni. Það er líka skemmtilegt að verkið tengist öðrum stórum tímamótum í lífi íslensku þjóðarinnar en listaverkið bar sigur úr býtum í samkeppni sem snerist um það að minnast 1.000 ára kristni í landinu og landafunda Íslendinga í Vesturheimi. Verkið Íslandsklukka er eftir listamanninn Kristinn E. Hrafnsson og ég held við getum öll verið sammála um að það sómir sér afar vel hér á hæðinni við Háskólann á Akureyri.

Ég segi til hamingju með daginn öll sömul og nú skulum hefjast handa við að hringja Íslandsklukku hundrað sinnum.