INTERFACE Erasmus verkefni leitt af Byggðastofnun

Merki verkefnins INTERFACE
Merki verkefnins INTERFACE

Ég er fædd og uppalin í litlu samfélagi. Í Stykkishólmi þar sem 1200 manns búa. Ég fluttist þangað aftur eftir nám með rómantískar hugmyndir um að flytjast aftur heim eftir nám. Ég var dálítið eins og geimvera, einhleyp, á framabraut og ekki alveg eins og hinir. Það voru ákveðnir fordómar gagnvart framakonunni. Hún var ekki litin réttum augum. Síðan eru liðin 20 ár. Ég varð seinna bæjarstjóri í þúsund manna samfélagi vestur á fjörðum, Vesturbyggð. Núna er ég bæjarstjóri í Grímsey og Hrísey og Akureyri. Brothættar byggðir eru því mitt "thing"!
Ég þekki Brothættar byggðir vel. Ég tók þátt í því verkefni bæði sem bæjarstjóri og sem stjórnarmaður í Byggðastofnun. Ég hef hugsað þessi mál mikið og velt vöngum um stöðu lítilla samfélaga sl. ár. Ég kann að hljóma neikvæð, hrokafull og fordómafull. En þetta er talað af 45 ára reynslu.

Ég ætla að stikla hér á stóru og nefna nokkur mál sem ég tel að séu mikilvæg. Ég gæti hins vegar staðið hér í allan dag og rætt þessi mál.
Jaðarsamfélögin alls staðar í heiminum eru í vörn. Þau eru öll brothættar byggðir. Ísland er líka brotthætt byggð. Í gegnum tíðina hafa ósjaldan komið fréttir um að að allt sé í upplausn í ákveðnum samfélögum. Þetta er eitthvað sem við öll höfum heyrt. Atvinnulífið er brothætt, mannlífið er brotthætt. Stundum þarf bara eitt fyrirtæki að hætta og þá er samfélagið í sárum. Nú eða ein fjölskylda að flytja í burtu og þá er skarð fyrir skildi. Í litla samfélaginu skiptir hver einstaklingur miklu máli. Þú verður ósjálfrátt fullur þátttakandi þegar þú býrð í litlu samfélagi. Það þarf að hlúa að öllu því sem er til staðar þannig að það blómstri.

Eitt mikilvægasta mál til þess að styrkja jaðarsamfélög er að auka þekkingu í samfélaginu. Það skiptir máli að auka þekkingu og færni til að takast á við nýja tíma. Fjórðu iðnbyltinguna og allar áskoranir sem henni fylgja. Litlu samfélögin í kringum landið eru vel flest því miður ansi mikið á eftir þegar kemur að tækniþróun, ljósleiðaratengingum og þess háttar. Ljósleiðari og bættar samgöngur verma nánast alltaf toppsætið þegar kemur að óskalistum.

Verandi íbúi í samfélagi þá skiptir höfuðmáli að taka þátt. Ef þú gerir það ekki, hver á þá að gera það? Á ég að gera það? EF þú vilt leikfélag skaltu stofna eitt. Ef þú vilt fá listsýsningar skaltu halda þær. Ef þú vilt stuðla að framförum skaltu taka þátt í bæjarmálum. Að koma málum áfram verður á ábyrgð allra, ekki bara þeirra sem stýra.

En mikilvægasta málið fyrir þessi litlu samfélög er að íbúarnir sæki sér menntun þannig að framþróun verði í samfélaginu. Stöðnun er það versta sem hendir lítið samfélag. Ég segi því sækið ykkur menntun. Og þá alla menntun. Ekki bara framhaldsskólapróf og háskólapróf heldur líka iðnmenntun og starfsréttindi. Ekki bara stelpurnar, heldur líka strákarnir.

Allt of fáir karlmenn sækja sér menntun. Þeir fá sér pungaprófið og meiraprófið en það eru stelpurnar sem fara í háskólanámið. Þær eru margar hverjar að safna háskólagráðum. En strákarnir gera það ekki.
Og þá spyr ég: Hvers vegna eru karlar ekki að sækja sér menntun? Eru það fordómar karla í landsbyggðarsamfélögum til menntunar? Af reynslu minni er það raunin. Einhverjum kann að finnast það hrokafullt að segja. Skaðmenntað fólk er frasi sem ég hef heyrt allt of oft. Mér finnst þetta vera umhugsunarefni sem vert er að huga að.

Hverskonar menntun skiptir máli. Tenging gerir það að verkum að heimurinn er undir. Það er hægt að stunda nám við Harvard en búa á Þórshöfn. En mikilvægast af öllu er að læra það sem veitir ykkur gleði.

Svo er það hættan „að mennta sig í burtu" úr samfélaginu. Tækifærin fyrir háskólamenntað fólk eru ekki í raun mörg þegar kemur að jaðarbyggðum. Miðstýring ríkisvaldsins hefur valdið því að störfum hefur því miður fækkað í heimabyggð. Líklega hafa aðgerðir eða aðgerðaleysi ríkisvaldsins hafið hvað mest áhrif á fækkun starfa fyrir háskólamenntað fólk á landsbyggðinni. En það eru tækifæri ef maður er sniðugur og nýtir tæknina. Það er mikilvægt að hafa hugrekki til að grípa boltann. Maður þarf ekki alltaf að vinna fyrir einhvern annan.

En það er mikil og raunveruleg hætta á ferðum á enn meiri atgervisflótta í jaðarsamfélögum. Hættan er sú að samfélögin verði einsleit, án kvenna og án fólks með menntun, rétt eins og atvinnulífið er einsleitt. Þetta er raunveruleg hætta og þessi þróun er byrjuð og hún gæti gengið mjög hratt.

Lítil samfélög eru þau bestu en geta líka verið jafnframt þau verstu. Mikill kærleikur en jafnframt mikil dómharka er eitthvað sem við þekkjum mjög vel. Fólk hefur skoðanir á öllu og öllum. Þegar veikindi eða andlát verða þá er gott að búa í litlu samfélagi en það er ekki eins og slíkt hendi mann alla daga. Þeir sem flytjast nýir eiga oft erfitt uppdráttar, sérstaklega þeir sem binda bagga sína ekki sömu hnútum og aðrir.
Vandi smærri samfélaga er að við erum allt of dómhörð, höfum lítið umburðarlyndi og að sjálfsögðu skoðanir á öllu. Þeir sem vilja breyta mæta andstöðu. Þeir sem skara fram úr fá oftar en ekki holskeflu andstöðu.
Stundum er rómantíkin meiri en raunveruleikinn. Maður þarf að vera raunsær en bjartsýnn og þakka fyrir allt það góða fólk sem í þorpunum býr.

Og svo ekki gleyma kærleikanum, víðsýninni, umburðarlyndinu.
En "at the end of the day" þá eru lítil samfélög góð og notaleg. Það geta verið fjölmörg tækifæri en það þarf að hafa sterk bein til að þola við. Atgervisflótti er mikill og vonir og væntingar nútímans eru aðrar en voru áður en það allra allra mikilvægasta fyrir lítil samfélög er menntun, þáttaka og kærleikur gagnvart náunganum.

Ég vil fá að þakka fyrir tækifærið til að koma hingað í dag og ræða byggðamál sem er helsta áhugamálið mitt.