Innleiðingu á nýju leiðaneti frestað

Umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar samþykkti á síðasta fundi sínum að fresta innleiðingu á nýju leiðaneti Strætisvagna Akureyrar til 1. ágúst 2022.

Stefnt var að því hefja innleiðingu nú í sumar, en eftir nánari skoðun er það ekki talið raunhæft. Útfæra þarf vaktaplan í ljósi vinnutímastyttingar og kostnaðaráætlun við nýtt kerfi í heild sinni, auk þess sem kanna þarf betur ýmsar útfærslur á leiðakerfinu áður en til innleiðingar kemur.

Nýtt leiðanet sem var kynnt í mars síðastliðnum að loknu samráði og endurskoðun byggir á leiðarljósum um aukna tíðni, beinni leiðir og styttri ferðatíma. Vinna við mótun leiðanetsins hófst í september 2020 á grundvelli gagnasöfnunar sem fór fram í lok árs 2019, annars vegar með almennri könnun meðal íbúa og sérstöku samráði við börn og ungmenni sveitarfélagsins.

Markmið með endurskoðun leiðakerfisins er að koma til móts við óskir íbúa um betra og skilvirkara kerfi, auka notkun, bæta nýtingu fjármuna, minnka bílaumferð og stuðla þannig að jákvæðum umhverfisáhrifum.

Smelltu hér til að skoða vefsvæði verkefnisins.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan