Inda Björk tilnefnd til stjórnunarverðlauna Stjórnvísi

Inda Björk Gunnarsdóttir, skólastjóri leikskólans Kiðagils. 
Ljósmynd: Daníel Starrason.
Inda Björk Gunnarsdóttir, skólastjóri leikskólans Kiðagils.
Ljósmynd: Daníel Starrason.

Inda Björk Gunnarsdóttir, skólastjóri leikskólans Kiðagils, er tilnefnd til stjórnunarverðlauna Stjórnvísi árið 2021.

Stjórnvísi er stærsta stjórnunarfélag landsins og eru verðlaunin veitt árlega stjórnendum fyrirtækja og stofnana sem hafa skarað fram úr á sínu sviði. Að þessu sinni eru ríflega eitt hundrað tilnefnd og verða verðlaunin veitt í þremur flokkum; frumkvöðla, millistjórnenda og yfirstjórnenda.

„Ég met það virkilega mikils að fá tilnefningu og gaman að tilheyra þessum hópi,“ segir Inda. „Ég hef mikinn áhuga á stjórnun og stjórnunarháttum og hef sótt nokkuð mikið af fræðslu þó svo að ég sé ekki með háskólamenntun á því sviði. Stjórnun skiptir miklu máli, að vera til staðar, að vera aðgengilegur hvort sem er á vinnutíma eða ekki, að geta tekið erfiðu samtölin, gera sér verkferla varðandi viðverusamtöl, leiðbeina og hlusta.“ Hún segist leggja mesta áherslu á tvo þætti í sínu starfi sem stjórnandi. Annað er samvinna og hitt að spyrja réttu spurninganna sem hvetja til ígrundunar og skoðanamyndunar.

Inda hefur frá árinu 2012 verið skólastjóri á Kiðagili sem er einn af 10 leikskólum Akureyrarbæjar. Þar eru við leik og nám tæplega 100 börn á fjórum deildum. „Hin einfalda lífspeki Fisks (Fish!) er aldrei langt undan hér á Kiðagili. Það eru fjórar einfaldar og árangursríkar leiðir til að auka vinnugleði og bæta starfsárangur: Veldu þér viðhorf, að vera til staðar, að leika sér og að gera daginn eftirminnilegan,“ segir Inda.

Akureyrarbæ er mikill akkur í því að hafa í sínum röðum framúrskarandi starfsfólk og stjórnendur. Inda er ein þeirra og við óskum henni til hamingju með tilnefninguna.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands afhendir stjórnunarverðlaunin þann 25. mars næstkomandi. Hér má sjá lista yfir þá sem eru tilnendir.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan