Iceland Winter Games um helgina

Iceland Winter Games (IWG) vetrarhátíðin verður haldin í Hlíðarfjalli um næstu helgi, 22.-24. mars, en um alþjóðlega vetraríþróttahátíð er að ræða.

Iceland Winter Games er þriggja daga vetrar- og útivistarhátíð sem haldin er á Norðurlandi í fjórða sinn í ár og er hún svo sannarlega búin að festa sig í sessi, jafnt hjá bæjarbúum sem og vetraríþróttafólki og áhugamönnum um allt land sem og erlendis. Árið 2015 sameinuðust tvær stærstu vetrarhátíðir Norðurlands, Éljagangur og IWG undir nafni og merkjum Iceland Winter Games, sem gerir IWG að stærstu vetrarhátíð landsins og er enn í mjög örum vexti.

Meðal þess sem verður um að vera á IWG í ár er t.d. Fjallahjólabrun, vélsleðaspyrna, Íslandsmót á snjóskautum og Freeride session þar sem skíðað er utan troðinna skíðaleiða og eru allir velkomnir að vera með. Það verður haldið í Hlíðarfjalli og enginn þátttökukostnaður. Allir áhugasamir um utanbrautarennsli eru hvattir til að koma og renna sér.

Einnig verður Meistaramót unglinga-UMÍ í alpagreinum og skíðagöngu haldið sömu helgi í Hlíðarfjalli og því nóg um að vera í fjallinu og mikið af áhugaverðum og áhorfendavænum viðburðum sem bæjarbúar og aðrir gestir eru hvattir til að fylgjast með.

Á Glerártorgi fer svo fram vetrartækjasýning í tengslum við hátíðina þar sem gestir og gangandi geta virt fyrir sér gömul og ný tæki í heimi vetrarútivistar.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu hátíðarinnar www.icelandwintergames.com.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan