Íbúagátt verður þjónustugátt

Íbúagátt Akureyrarbæjar hefur fengið nýtt heiti – þjónustugátt – frá og með deginum í dag. Jafnframt hafa töluverðar breytingar verið gerðar og er þjónustugáttin bæði aðgengilegri og nytsamlegri en áður.

Gáttin er rafrænt svæði sem auðvelt er að nálgast á heimasíðu Akureyrarbæjar, efst í hægra horninu á forsíðunni. Hægt er að skrá sig inn með íslykli eða rafrænum skilríkjum.

Þjónustugátt lýsir betur en fyrra nafn tilgangi og eiginleikum síðunnar. Hún er fyrst og fremst þjónustusvæði fyrir íbúa en einnig fyrir alla þá sem sækja þjónustu eða eiga í viðskiptum við Akureyrarbæ burtséð frá búsetu. Sem dæmi má nefna að frá áramótum verður eingöngu hægt að sækja um byggingarlóðir rafrænt í þjónustugáttinni en slíkar umsóknir einskorðast vitanlega ekki við íbúa Akureyrarbæjar.

Samhliða nafnabreytingunni hefur gáttin verið uppfærð og endurbætt. Líkt og áður geta notendur sótt rafrænt um ýmsa þjónustu og fylgst með afgreiðslu erinda sinna. Umsóknum hefur hins vegar fjölgað mikið og þær gerðar aðgengilegri, auk þess sem nú er hægt að skoða yfirlit yfir reikninga, til dæmis vegna fasteignagjalda. Í þjónustugátt eru einnig upplýsingar um frístundaframboð og er hægt að sækja um frístundastyrk fyrir börn á aldrinum 6-17 ára.

Akureyringar og viðskiptavinir sveitarfélagsins eru hvattir til að kynna sér möguleika þjónustugáttar. Ef eitthvað er óljóst eða má betur fara er velkomið að senda okkur ábendingu. Það er einmitt hægt að gera í þjónustugáttinni, en líka með því að smella hér

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan