Hvernig má bæta vinnustaðamenningu í skólum?

Dr. Sigrún Gunnarsdóttir ræðir verkefnið við hluta hópsins.
Dr. Sigrún Gunnarsdóttir ræðir verkefnið við hluta hópsins.

Um þessar mundir taka Brekkuskóli og Leikskólinn Klappir þátt í samstarfsverkefni sem miðar að því að bæta vinnustaðamenningu og auka vellíðan í skólastarfi. Verkefnið byggir á niðurstöðum könnunar á stöðu fólks á íslenskum vinnumarkaði sem gerð var fyrir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og Vinnueftirlitið í lok árs 2022. Niðurstöðurnar gáfu tilefni til þess að gefa aðstæðum starfsfólks í leik- og grunnskólum meiri gaum með hliðsjón af vellíðan þess í starfi.

Til að bregðast við því var stofnað til samstarfs Vinnueftirlitsins, Kennarasambands Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Sigrúnar Gunnarsdóttur prófessors við félagsvísindasvið Háskóla Íslands. Auglýst var eftir skólum til þátttöku í verkefninu og voru tveir grunnskólar og þrír leikskólar valdir til þátttöku.

Tæpt ár er síðan verkefninu var ýtt úr vör á sameiginlegum fundi skólanna og í kjölfarið hafa Sigrún og sérfræðingur hjá Vinnueftirlitinu fundað reglulega með þátttökuskólunum þar sem samráð, ígrundun og ráðgjöf varðandi verkefni og áætlanir skólanna hafa mótast. Skólarnir hafa t.d. unnið með þætti sem lúta að því að efla samskipti og samstöðu, styðja sálrænt öryggi, styrkja teymisvinnu, skýra væntingar og hlutverk, skerpa verklag og ferla ásamt því að bæta móttöku nýliða.

Sameiginlegur fundur þátttökuskóla og verkefnastjórnar var haldinn fimmtudaginn 30. janúar síðastliðinn þar sem farið var yfir stöðu verkefnisins. Þátttakendur eru sammála um að verkefnið hefur verið gagnlegt og samtalið við aðra skóla lærdómsríkt. Utanumhald og eftirfylgni hefur verið góð og fólki er haldið vel við efnið. Rammi verkefnisins er góður og gagnlega uppsprettu verkefna er þar að finna. Verkefni hafa verið sett á dagskrá sem ellegar hefði ekki verið gert. Skólarnir munu nota vorönnina til að halda áfram að innleiða verkefnin og síðan verður staldrað við og litið í baksýnisspegilinn til að skoða hvað gekk vel og hvað ekki. Loks verður niðurstöðunum miðlað áfram svo aðrir geti nýtt sér reynsluna sem fékkst í verkefninu.

Nánari upplýsingar og fræðsluefni er að finna á heimasíðu Vinnueftirlitsins.

Jóhanna María Agnarsdóttir, skólastjóri, og Aðalheiður Bragadóttir, deildarstjóri, kynna verkefnin sem unnið hefur verið að í Brekkuskóla.
Jóhanna María Agnarsdóttir, skólastjóri, og Aðalheiður Bragadóttir, deildarstjóri, kynna verkefnin sem unnið hefur verið að í Brekkuskóla.

Hafdís Ólafsdóttir, leikskólastjóri á Klöppum, og Áslaug Magnúsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri, kynna framgang verkefnisins í leikskólanum.
Hafdís Ólafsdóttir, leikskólastjóri á Klöppum, og Áslaug Magnúsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri, kynna framgang verkefnisins í leikskólanum.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan