Hvað er að frétta af Héraðsskjalasafninu?

Í fyrra bættust við 56 hillumetrar af skjölum í 85 afhendingum til Héraðsskjalasafnsins á Akureyri. Ríflega 600 manns heimsóttu safnið og voru útlán hátt í 5.000 talsins.

Síðasta ár var viðburðaríkt á Héraðsskjalasafninu sem fagnaði 50 ára afmæli með pompi og prakt, en auk þess voru settar upp ýmsar sýningar, til dæmis á skjölum sem tengjast mat og önnur sem tengdist samgöngum og ferðalögum. Héraðsskjalasafnið tók þátt í skjaladeginum 9. nóvember undir yfirskriftinni „Geymt en ekki gleymt“.

Geymslurnar rúma 2,5 kílómetra

Það kennir ýmissa grasa á safninu sem er í sama húsnæði og Amtsbókasafnið við Brekkugötu. Talið er að geymslurnar rúmi um 2,5 kílómetra af skjölum og er stór hluti plássins nýttur nú þegar. Alltaf bætist við, en frá árinu 2011 hefur hillumetrum af skjölum fjölgað um 671.

 

Í fyrra komu 602 gestir á safnið, meirihlutinn karlmenn en um þriðjungur konur. „Langflestir dvelja um stund og sumir allan daginn. Útlán á árinu voru um 4.900 og eru þá meðtaldar uppflettingar starfsfólks vegna afgreiðslu fyrirspurna, en tölur um fyrirspurnir eru ekki tiltækar,“ segir Lára Ágústa Ólafsdóttir héraðsskjalavörður.

En hvað er framundan?

„Undanfarin ár höfum við verið með örsýningar í tveimur skápum á þriðju hæðinni og munum halda því áfram á þessu ári. Þetta eru litlar sýningar að umfangi, standa í skamman tíma og fyrirvarinn oft stuttur. Ef fréttist af tímamótum eða viðburðum þá drögum við fram skjöl sem því tengjast og stillum upp.

Á næstu dögum verða skjöl tengd tónlist sett í þessa skápa og svo þegar fermingarnar byrja þá munum við sýna fermingarskjöl, svo sem fermingarkort og servíettur,“ segir Lára.

Sífellt fleiri skjöl á vefnum

Frá 2016 hefur Héraðsskjalasafnið notið styrkja frá Þjóðskjalasafninu til þess að mynda og setja á vefinn skjöl úr safninu. „Myndaðar hafa verið gjörðabækur sveitarfélaga, virðingabækur, íbúaskrár á Akureyri og í fyrra voru mynduð bréf hreppstjóra og sveitarfélaga. Alls hafa verið myndaðar 227 bækur og eru myndirnar á vefnum orðnar rúmlega 47.800,“ segir Lára. Með þessu er verið að nota tæknina og gefa fólki tækifæri til að skoða skjölin heima hjá sér, en miðað er við að þau séu orðin 80 ára þegar þau eru birt á vefnum.

Eitt af verkefnum opinberra skjalasafna er að veita skilaskyldum aðilum ráðgjöf og hafa eftirlit með skjalamálum. Til þess að geta sinnt þessu verkefni betur voru gerðar breytingar á opnunartíma safnsins um síðustu áramót og nú er safnið lokað á miðvikudögum. „Það er reglulega eitthvað spennandi að gerast hjá okkur og hér er líka hægt að komast í alls konar skjöl sem mörgum þykir fjársjóður. Við hvetjum Akureyringa og nærsveitarfólk til að kíkja við og skoða hvað við höfum upp á að bjóða,“ segir Lára.

Hér má skoða heimasíðu Héraðsskjalasafnsins. 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan