Hugur í atvinnurekendum á Akureyri

Akureyri. Ljósmynd: María Helena Tryggvadóttir.
Akureyri. Ljósmynd: María Helena Tryggvadóttir.

Vel heppnað rafrænt fyrirtækjaþing var haldið í gær á vegum Akureyrarstofu og SSNE, Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra.

Komu þar saman í netheimum fulltrúar á fjórða tug fyrirtækja sem eru með fjölbreytilega atvinnustarfsemi á Akureyri og ræddu meðal annars um helstu kosti og áskoranir sem felast í fyrirtækjarekstri á svæðinu og tækifæri til framtíðar.

Ráðgjafar frá Símey stjórnuðu umræðum og var fjölbreyttum aðferðum beitt til að kalla fram viðhorf þátttakenda. Sköpuðust afar uppbyggilegar og góðar umræður í rýnihópum sem munu nýtast vel í framhaldinu. Fyrirtækjaþingið er liður í greiningu á samkeppnishæfni sveitarfélagsins og undanfari nýrrar atvinnustefnu og aukinnar markaðssóknar Akureyrarbæjar.

Áform um aukin umsvif

Í lokin voru þátttakendur spurðir um framtíðaráform og voru niðurstöðurnar í senn jákvæðar og eftirtektarverðar. Af 34 sem svöruðu spurningunni sögðust 25 (74%) sjá fyrir sér aukin umsvif í atvinnurekstri á Akureyri, sex töldu að umsvif héldust óbreytt en aðeins einn hafði áform um að draga úr umsvifum.

Svörum við þessari spurningu og nokkrum öðrum var safnað í gegnum Mentimeter veflausnina og eru þau því órekjanleg til einstakra þátttakenda. Þó niðurstöðurnar séu úr óformlegri könnun þá eru þær engu að síður vísbending um að mikill hugur sé í atvinnurekendum á svæðinu.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan