Hugmyndasamkeppni um skipulag Torfunefs

Ljósmynd af heimasíðu Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.
Ljósmynd af heimasíðu Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.

Hafnasamlag Norðurlands, Akureyrarbær og Arkitektafélag Íslands efna til opinnar hugmyndasamkeppni um skipulag Torfunefs. Meginmarkmið verkefnisins er að fá fram tillögu að lifandi hafnarhverfi með fjölbreyttri starfsemi í hjarta Akureyrar.

Leitað er eftir tillögu þar sem byggingar og almannarými hafa aðdráttarafl fyrir bæjarbúa, ferðamenn og rekstraraðila á ýmsum sviðum. Einnig mætti útirými gjarnan gefa möguleika á viðburðum, svo sem útitónleikum, markaði eða öðrum smærri uppákomum.

Skipulagsráð Akureyrarbæjar samþykkti í nóvember sl. að heimila Hafnasamlagi Norðurlands að setja af stað hönnunarsamkeppni um hönnun og útlit á Torfunefssvæðinu.

Í dómnefnd sitja Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, formaður dómnefndar, Pétur Ólafsson hafnarstjóri Hafnasamlags Norðurlands, Ágúst Hafsteinsson arkitekt, Árni Ólafsson arkitekt og Guðrún Ragna Yngvadóttir arkitekt.

Tímalína:

  • 10. janúar - Samkeppni auglýst
  • 31. janúar - Fyrri fyrirspurnarfrestur
  • 28. febrúar - Seinni fyrirspurnarfrestur
  • 30. mars - Skil tillagna
  • 27. apríl - Áætlað er að dómnefnd kynni niðurstöðu

Á heimasíðu Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs er að finna nánari upplýsingar og samkeppnislýsingu.

Öll áhugasöm eru hvött til að kynna sér málið og senda inn hugmynd. 

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan