Hraða- og rauðljósamyndavélar teknar í notkun

Myndavél við Hörgárbraut.
Myndavél við Hörgárbraut.

Tvær hraða- og rauðljósamyndavélar við Hörgárbraut eru teknar í notkun í dag, 19. október. Myndavélarnar eru staðsettar við ljósastýrða gönguþverun við Stórholt. 

Uppsetning og rekstur myndavélanna er samstarfsverkefni Lögreglunnar á Norðurlandi eystra, Akureyrarbæjar og Vegagerðarinnar. Markmiðið er að draga úr ökuhraða og fækka brotum vegna aksturs gegn rauðu ljósi á þjóðveginum. 

Búnaðurinn var settur upp síðastliðið vor og hefur síðan verið unnið að ýmsum tæknilegum úrlausnarefnum og prófunum, en myndavélarnar eru nú komnar í fulla virkni. Með stafrænni myndatöku eru upplýsingar um hraðabrot og rauðljósaakstur sendar samstundis til lögreglunnar. Ekki er tekin mynd nema um brot sé að ræða.

Tilkoma myndavélanna er liður í aðgerðaáætlun til að bæta umferðaröryggi á svæðinu. Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti í fyrra tillögur að úrbótum á svæðinu milli Glerár og Undirhlíðar. Mikil umferð er alla jafna um þennan kafla og hafa orðið of mörg slys og óhöpp á undanförnum árum. 

Meðal annarra aðgerða sem gripið hefur verið til eru skilti með með upplýsingum um raunhraða ökutækja, hraðamælingar og bættar merkingar. Auk þess var trjám plantað í miðeyju en talið er að tré á milli akreina auki þéttbýlisupplifun ökumanna og dragi úr ökuhraða. 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan