Höfum það umbúðalaust á Akureyri

Evrópska nýtnivikan stendur yfir frá laugardeginum 18. nóvember til sunnudagsins 26. nóvember.

Fjölmargir viðburðir verða á döfinni hvort heldur sem er á vegum sveitarfélagsins þar sem Amtsbókasafnið er í fylkingarbrjósti eða á vegum fyrirtækja um allan bæ. Markmið átaksins er að hvetja fólk til að draga úr óþarfa neyslu, nýta hluti betur og draga þannig úr myndun úrgangs. Þemað á landsvísu er að þessu sinni „Höfum það umbúðalaust!“

Hápunktar nýtnivikunnar á Akureyri eru m.a. þessir:

Miðvikudaginn 22. nóvember verður gjafabréfasmiðja í Amtsbókasafninu undir handleiðslu myndlistarkonunnar Jonnu þar sem gestir geta útbúið umhverfisvæna jólagjöf, svo sem upplifun eða góðverk. Viðburðurinn á Facebook.

Fimmtudaginn 23. nóvember verður ýmislegt um að vera. Þá verður opið hús í FabLab í VMA frá kl. 13-18 þar sem fólki býðst að prófa ýmis tæki og tól til að búa til ótrúlegustu hluti úr alls kyns efniviði, til dæmis úr umbúðum. Á Amtsbókasafninu verður Diskósúpa um klukkan sex þar sem Sveinn Thorarensen lagar súpu fyrir alla sem vilja úr grænmetisafgöngum frá Krónunni. Frá kl. 19-22 verður síðan Reddingakaffi á Amtsbókasafninu þar sem gestir geta komið með hluti sem þarf að laga og a.m.k. gert heiðarlega tilraun til að koma þeim í samt lag. Saumavélar og smáverkfæri verða á staðnum. Viðburðurinn á Facebook.

Sunnudaginn 26. nóvember verður listasmiðja í Listasafninu með fókus á umbúðir og hvernig má nýta þær á listrænan hátt.

Og í tilefni af Evrópsku nýtnivikunni gefst bæjarbúum tækifæri á að eignast 4. og 5. bindi af Sögu Akureyrar sér að kostnaðarlausu á meðan birgðir endast. Bækurnar verður hægt að nálgast á Amtsbókasafninu frá 20.-26. nóvember.

Ýmislegt fleira verður á dagskránni og verður það auglýst betur á Facebooksíðu Nýtnivikunnar á Akureyri 2023.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan