Hertar takmarkanir - áhrif á skólastarf

Brekkuskóli er einn af tíu grunnskólum Akureyrarbæjar.
Brekkuskóli er einn af tíu grunnskólum Akureyrarbæjar.

Gera þarf breytingar á skólastarfi grunnskóla Akureyrarbæjar í ljósi nýjustu tilmæla og verður fækkað í hópum eldri nemenda frá og með morgundeginum. Foreldrar barna í leik- og grunnskóla eru eindregið hvattir til að hafa börn sín heima ef mögulegt er og láta ritara skólanna vita af þeim áformum. 

Stjórnvöld hafa kynnt hertari takmarkanir á samkomum, sem taka gildi á miðnætti, til að bregðast við útbreiðslu Covid-19. Viðburðir verða takmarkaðir við 20 manns í stað 100 og þarf áfram að tryggja tveggja metra fjarlægð milli fólks. Loka skal sundlaugum, söfnum, líkamsræktarstöðvum og fleiru, en auk þess er óheimil ýmis starfsemi og þjónusta sem krefst mikillar nálægðar fólks.

Eldri grunnskólanemendur verða heima

Sóttvarnir og hreinlæti verða áfram fyrsta forgangsmál í leik- og grunnskólum, en hólfun skóla verður enn markvissari en áður og verður tekið fyrir allan samgang. Í ljósi nýjustu tilmæla, og eftir samtöl við sóttvarnalækni, almannavarnir og fund skólastjórnenda, hefur verið ákveðið að herða aðgerðir:

- 1.-4. bekkur verður áfram til hádegis í skólanum skv. sama skipulagi og verið hefur.
- 5.-7. bekk verður skipt í tvo hópa og mæta nemendur annan hvern dag samkvæmt nánara skipulagi í hverjum skóla.
- 8.-10. bekkur verður alfarið í heima- og sjálfsnámi með aðstoð kennara.
- Tónlistarskólinn hættir kennslu í Hofi og hefur fjarkennslu þar sem því verður við komið.

Leikskólastarf er óbreytt og gengur vel. 

Foreldrar barna í leik- og grunnskólum sem eru heima yfir daginn og geta haft börn sín heima, að hluta eða öllu leyti, eru beðin um að gera það. Það styrkir enn frekar sóttvarnir og auðveldar starfsfólki að halda uppi reglubundnu starfi í smærri hópum.

Verið er að leggja lokahönd á útfærslu innheimtu sveitarfélagsins á gjöldum fyrir þjónustu í leik- og grunnskólum í ljósi stöðunnar og skertrar þjónustu. Nánari upplýsingar eru væntanlegar síðar í dag.

Rétt er að geta þess að að barnanámskeið á vegum Punktsins í Rósenborg hafa verið felld niður um óákveðinn tíma og er þar með engin skipulögð starfsemi í Rósenborg, hvorki á vegum Punktsins, félagsmiðstöðva né Ungmennahúss. Félagsmiðstöðvar eru einnig lokaðar í skólum en starfinu er haldið gangandi með stafrænum lausnum í gegnum samfélagsmiðla. 

Plastiðjunni Bjargi-Iðjulundi verður lokað fyrir notendum frá og með morgundeginum af sömu ástæðum. Starfsemi hæfingarstöðvarinnar í Skógarlundi er í skoðun.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan