Hertar sóttvarnareglur – áhrif á þjónustu bæjarins

Brekkuskóli er einn af grunnskólum bæjarins. Þeim verður lokað fram að páskum.
Brekkuskóli er einn af grunnskólum bæjarins. Þeim verður lokað fram að páskum.

Grunnskólum verður lokað frá og með morgundeginum vegna hertra sóttvarnaráðstafana stjórnvalda. Sama gildir um sundlaugar og önnur íþróttamannvirki.

10 manna samkomutakmarkanir taka gildi á landsvísu á miðnætti og eiga við um alla sem eru fæddir fyrir árið 2015. Starfsemi sem ekki rúmast innan fjöldatakmarkana er bönnuð. Almennt gilda þessar reglur í þrjár vikur.

Skólarnir:

  • Grunnskólar Akureyrarbæjar verða lokaðir fram að páskum.
  • Starfsemi leikskóla verður áfram með sama hætti og verið hefur.
  • Tónlistarskólinn á Akureyri lokar, en þar verður tekin upp fjarkennsla með svipuðu sniði og í fyrri lokunum. 
  • Foreldrar fá nánari upplýsingar um skólastarf frá einstökum skólum.

Sund, íþróttir og söfn:

  • Sundlaugum bæjarins verður lokað sem og öðrum íþróttamannvirkjum.
  • Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli er til skoðunar, hvort hægt verði að hafa hluta þess opið með takmörkunum. Rétt er að fylgjast með heimasíðu og facebook-síðu Hlíðarfjalls. Uppfært 25.3: Brekkur og lyftur eru lokaðar, en beðið er eftir svari frá almannavörnum um framhaldið. Skíðagöngusvæðið er opið og er fólki bent á að kaupa miða á vefnum. 
  • Amtsbókasafnið lokar en boðið verður upp á pantanir líkt og í síðustu lokun.
  • Listasafnið verður opið með takmörkunum.

Uppfært 25.3: Sóttvarnareglur á Öldrunarheimilum Akureyrar hafa sömuleiðis verið hertar til að bregðast við ástandinu.

Þjónustuver í Ráðhúsi verður opið áfram en íbúar eru hvattir til að koma erindum sínum á framfæri í gegnum tölvupóst eða síma eins og kostur er. Þá er tilvalið að nota rafrænar lausnir eins og netspjall og þjónustugátt hér á heimasíðunni. Almennt verður starfsfólk á skrifstofum bæjarins við vinnu heima næstu daga og vikur.

Stjórnendur Akureyrarbæjar vinna nú að því að meta enn frekar áhrif á starfsemi og þjónustu.

Fréttin verður uppfærð þegar frekari upplýsingar liggja fyrir.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan