Hermann Sigtryggsson 90 ára

Hermann á heimili sínu fyrr í dag.
Hermann á heimili sínu fyrr í dag.

Æskulýðs- og íþróttafrömuðurinn Hermann Sigtryggsson fagnar 90 ára afmæli sínu í dag. Hermanni var veitt heiðursviðurkenning Akureyrarbæjar á 150 ára afmæli sveitarfélagsins árið 2012 en honum hefur hlotnast margvíslegur heiður og viðurkenningar á löngum og farsælum starfsferli.

Hermann fæddist á Akureyri þann 15. janúar 1931. Foreldrar hans voru Sigtryggur Sigurðsson skipasmiður og Anna Lýðsdóttir kennari og húsmóðir. Eiginkona Hermanns var Rebekka H. Guðmann og dætur þeirra eru Anna Rebekka og Edda sem báðar eru íþróttakennarar. Rebekka lést árið 2015.

Hermann gekk í Barnaskóla og Gagnfræðaskóla Akureyrar og síðan lá leiðin í Íþróttakennaraskóla Íslands þaðan sem hann útskrifaðist árið 1951. Hermann var aðeins 17 ára þegar hann hóf störf sem íþróttakennari hjá UMSE og skólum í Eyjafirði, seinna starfaði hann við íþróttakennslu á Stokkseyri og Eyrarbakka og svo aftur á heimaslóðum fyrir UMSE þar sem hann varð jafnframt framkvæmdastjóri. Hermann var hótelstjóri og framkvæmdastóri fyrir templara á Akureyri um þriggja ára skeið. Lengst var hann íþrótta- og tómstundafulltrúi Akureyrarbæjar eða frá árinu 1963-1996. Frá þeim tíma var hann fyrsti framkvæmdastjóri Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands og móttökustjóri hjá bænum til ársins 2001 þegar hann lét af störfum 70 ára að aldri.

Frá unga aldri starfaði Hermann að ýmsum félagsmálum, tók virkan þátt í íþróttum og lék knattspyrnu í öllum flokkum með KA og með ÍBA í meistaraflokki. Hann keppti í frjálsum íþróttum og átti nokkur Akureyrarmet í styttri hlaupum. Hermann hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa fyrir KA, ÍBA, Ferðamálafélag Akureyrar, Rótaryklúbb Akureyrar og Norræna félagið á Akureyri. Hermann átti sæti í æskulýðsráði ríkisins, í framkvæmdastjórn ÍSÍ og nefndum fyrir SKÍ og menntamálaráðuneytið svo eitthvað sé nefnt. Hermann sat í ýmsum nefndum fyrir Akureyrarbæ, til að mynda byggingarnefnd Skíðahótelsins og Íþróttahallarinnar.

Hermann var meðal stofnenda Andrésar Andar leikanna árið 1975. Hann starfaði fyrst við Skíðalandsmót Íslands á Akureyri árið 1946 og svo ótal sinnum um allt land eftir það í ýmsum hlutverkum, sem mótstjóri og í undirbúningsnefndum fyrir landsmótin. Hermann var mörgum sinnum fararstjóri fyrir ÍSÍ og Skíðasambandið á keppnisferðum erlendis og þ.m.t. á Ólympíuleikunum í Lillehammer í Noregi og Innsbruck í Austurríki.

Hermann hefur m.a. hlotið æðstu viðurkenningar KA, ÍBA, Frjálsíþróttasambands Íslands, Bandalags íslenskra skáta, Skíðasambandsins, Íþróttasambands fatlaðra, Alþjóða ólympíunefndarinnar, HSÍ og finnsku ljónsorðuna. Íslensku fálkaorðuna hlaut hann árið 2007.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan