Heimsókn frá umhverfisdeild Seúl borgar

Í liðinni viku tóku Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri, Andri Teitsson formaður stjórnar umhverfis- og mannvirkjasviðs og Sigurður Ingi Friðleifsson framkvæmdastjóri Orkuseturs á móti hópi fólks frá umhverfisdeild Seúl borgar í Suður-Kóreu og voru þau hingað komin til að kynna sér áherslur sveitarfélagsins í umhverfismálum.

Á hverju ári gefst starfsfólki Seúl borgar tækifæri til að heimsækja aðra borgir sem þykja skara fram úr í einhverju ákveðnu málefni og eftir að hafa kynnt sér málið á internetinu komust þau að því að vert væri að heimsækja Akureyri, þar sem sveitarfélagið hafi með einum og öðrum hætti unnið markvisst í umhverfismálum í um áratug, m.a. með stofnun Vistorku, og sett sér markmið um að bærinn verði kolefnishlutlaus.

Hópurinn byrjaði á að ræða málin á skrifstofu bæjarstjóra og að því loknu sýndi Sigurður Ingi þeim m.a. hvernig bærinn hefur komið fyrir grenndarstöðvum, Grænu trektina, aðgengi að rafhleðslum og metangasstöð, Glerárvirkjun II, skógrækt og fleira.

Segull sem notaður er til að sýna hversu langt er á milli staða og hversu langan tíma tekur að ganga eða hjóla þá vegalengd í stað þess að nota bíl, vakti mjög mikla athygli hjá hópnum.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan