Heiða Karlsdóttir vann með átta bæjarstjórum

Föstudaginn 10. janúar var Heiða Karlsdóttir, fyrrum ritari bæjarstjóra, jarðsungin frá Akureyrarkirkju.

Heiða fæddist á Akureyri 4. febrúar 1949 en lést 23. desember síðastliðinn.

Ung að árum lærði hún á orgel hjá móðurafa sínum en hann var organisti í Grundarkirkju og einnig vestur í Skagafirði. Seinna lærði Heiða á píanó í Tónlistarskólanum á Akureyri. Hún gekk í Barnaskóla Akureyrar og lauk þaðan gagnfræðaprófi. Að því loknu hóf hún störf á skrifstofu KEA og var þar næstu þrjú árin uns leiðir hennar og Gísla Björnssonar lágu saman og þau fluttu til Reykjavíkur. Þau gengu í hjónaband og eignuðust einn son, Björn sem fæddur er 1975, en hann er kvæntur Herdísi Björk Þórðardóttur og þau eiga synina Arnar Breka og Benedikt Ara.

Eftir skilnað þeirra Heiðu og Gísla fluttu mæðginin aftur norður. Árið 1983 hóf Heiða störf hjá Akureyrarbæ sem ritari bæjarstjóra og gegndi því starfi til ársins 2016. Á því tímabili starfaði hún með átta bæjarstjórum.

Í bæjarstjóratíð Kristjáns Þórs Júlíussonar var Heiða jafnframt gerð að ritara bæjarstjórnar en þau Kristján unnu ákaflega vel saman og hann kunni sannarlega að meta krafta hennar og gæði. Heiða var mjög nákvæm í öllum sínum störfum og gríðarlega samviskusöm.

Samstarfsfólk hennar í gegnum árinu hefur aðeins eina sögu að segja og það er hversu góð samstarfskona hún var og auðvelt að leita til hennar.

Heiðu Karlsdóttur eru þökkuð vel unnin störf í þágu Akureyrarbæjar.

Textinn er að hluta byggður á minningarorðum séra Hildar Eir Bolladóttur.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan