Hátíðarávarp

Kæru Akureyringar,
góðir gestir.

Gleðilegan þjóðhátíðardag.

Nú er 101 ár síðan baráttunni fyrir fullveldi Íslands lauk með fullnaðarsigri. Og fyrir réttum 75 árum, árið 1944, slitum við formlega sambandinu við konungsveldið Danmörku. Þá var lýðveldið Ísland stofnað, þjóðin gat kosið sér þjóðhöfðingja en þurfti hvorki að lúta kóngi né drottningu.

Þetta voru stórir sigrar í sögu þjóðar - en baráttunni er að sjálfsögðu aldrei lokið. Við þurfum alla tíð, um allan aldur, að standa vörð um fullveldi okkar og sjálfstæði, um auðlindir Íslands sem okkur hefur verið falið að nýta og varðveita.

 

Stundum er sagt að við eigum Ísland en að mínu mati er miklu mun réttara að segja að Ísland eigi okkur.

Í kvæðinu „Fylgd" eftir Guðmund Böðvarsson segir meðal annars:

Hér bjó afi' og amma
eins og pabbi' og mamma.
Eina ævi skamma eignast hver um sig,
- stundum þröngan stig.

En þú átt að muna
alla tilveruna
að þetta land á þig.

Göngum langar leiðir,
landið faðminn breiðir.
Allar götur greiðir
gamla landið mitt,
sýnir hjarta sitt.

Mundu, mömmu ljúfur,
mundu, pabba stúfur,
að þetta er landið þitt

 

Þetta land á þig - þetta er landið þitt.
Þannig erum við samofin landinu.

Ísland á okkur og við eigum Ísland - en okkur ber líka að hafa hugfast að hver sem er getur orðið Íslendingur ef aðeins hann eða hún ákveður að setjast hér að og helga krafta sína góðu starfi í þágu lands og þjóðar.

Þetta snýst um að gefa og taka eins og í samskiptum okkar við umheiminn og aðrar þjóðir. Allt er þetta eins og góður línudans. Við þurfum að vera opin og einlæg, fagna öllum fjölbreytileika, taka opnum örmum öllu því sem horfir til framfara, en standa um leið traustan vörð um arfleifð okkar og auðlindir landsins.

Síðustu ár og áratugi hefur það sannast betur en nokkru sinni fyrr, hversu mikils virði sjálf náttúra Íslands er.

Ferðamennskan skiptir þjóðarbúið sífellt meira máli og það er óspillt náttúran sem dregur að fjöldann.

Í fegurð landsins er einnig fólginn mikill kraftur, mikil orka sem ber að nýta á sjálfbæran og skynsamlegan hátt.

Allt þetta vatn sem streymir fram endalaust er ekki sjálfgefið og víða um veröld er mikill og vaxandi skortur á vatni. Sjálft vatnið er því kannski okkar dýrmætasta auðlind. Hvort heldur sem er til að beisla kraft þess og orku, eða til þess að vökva og næra allt sem lífsandann dregur.

Um þennan mikla auð sem býr í vatninu orti þjóðskáldið Einar Benediktsson í ljóðinu um Dettifoss. Þar segir meðal annars:

Þú gætir unnið dauðans böli bót,
stráð blómaskrauti yfir rústir grjótsins,
steypt mynd þess aftur upp í lífsins mót
með afli því, frá landsins hjartarót,
sem kviksett er í klettalegstað fljótsins.

Góðir Íslendingar,

kæru Akureyringar.

Í dag er bjart og hlýtt í hjörtum okkar allra þegar við minnumst sjálfstæðishetjunnar Jóns Sigurðssonar, fögnum sjálfstæði íslensku þjóðarinnar og stofnun lýðveldisins.

Að lokum vil ég fá að nota þetta tækifæri og þakka fyrir þær hlýju móttökur og hlýhug sem ég hef hvarvetna mætt hjá bæjarbúum eftir að ég tók við sem bæjarstjóri á Akureyri. Mér finnst frábært að vera flutt hingað norður í blómlega bæinn við fallega fjörðinn.

Gleðilegan þjóðhátíðardag!
Lengi lifi sjálfstætt og fullvalda Ísland.

Takk fyrir.