Hálfsársuppgjör: Afkoma lakari en áætlun gerði ráð fyrir

Rekstarniðurstaða Akureyrarbæjar á fyrri hluta ársins var neikvæð um 1.297 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að rekstrarhalli yrði 1.154 milljónir króna. Afkoma samstæðunnar er því nokkuð lakari en áætlan gerði ráð fyrir.

Árshlutareikningur Akureyrarbæjar fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2020 var lagður fram í bæjarráði í gær.

Afkoma A-hluta var nokkru betri en áætlun gerði ráð fyrir. Rekstarniðurstaðan var neikvæð um 1.097 milljónir króna, samanborið við áætlaðan rekstarahalla upp á 1.181 milljónir króna á tímabilinu.

Tekjur lægri en áætlað var

Tekjur samstæðunnar voru samtals 13.143 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir 13.556 milljónum króna í tekjur. Skatttekjur voru 54 milljónum umfram áætlun, en tekjur frá Jöfnunarsjóði voru 25 milljónum undir áætlun og aðrar tekjur voru 441 milljón undir áætlun.

Rekstrargjöld fyrir afskriftir voru samtals 12.669 milljónir króna sem er 210 milljónum undir áætlun. Laun og launatengd gjöld voru 8.641 milljón króna en áætlun gerði ráð fyrir 8.259 milljónum. Annar rekstrarkostnaður var 4.027 milljónir króna sem er 592 milljónum undir áætlun.

Veltufé frá rekstri var 497 milljónir króna í lok júní eða 3,8% af tekjum. Eigið fé sveitarfélagsins nam 25.142 milljónum króna en var 26.434 milljónir króna um síðustu áramót. Eiginfjárhlutfall var 43,1%.

Erfitt að meta endanleg áhrif Covid-19

Heimsfaraldurinn Covid-19 hefur haft veruleg áhrif á rekstur Akureyrarbæjar það sem af er ári, m.a. vegna lækkunar á tekjum og aukinna útgjalda. Áfram má búast við að áhrifin verði mikil á næstu mánuðum en erfitt er að meta endanleg áhrif á rekstur og fjárhag bæjarins meðan óvissa ríkir um hve lengi þetta ástand varir.

Fjárhagsstaða Akureyrarbæjar er sterk og hefur sveitarfélagið fjárhagslegan styrk til að taka á sig áföll vegna afleiðinga faraldursins.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan