Hagsmunaskrá bæjarfulltrúa aðgengileg

Frá bæjarstjórnarfundi.
Frá bæjarstjórnarfundi.

Nú er hægt að skoða skráningu aðal- og varafulltrúa í bæjarstjórn Akureyrarbæjar á fjárhagslegum hagsmunum og túnaðarstörfum. Hagsmunaskráin er aðgengileg hér á heimasíðunni og opin öllum. 

Á fundi bæjarstjórnar í september voru samþykktar tillögur starfshóps sem hafði meðal annars það verkefni að endurskoða siðareglur fyrir kjörna fulltrúa. Starfshópurinn lagði til að bæjarfulltrúar og varabæjarfulltrúar fylli út hagsmunaskráningu sem verði opin almenningi. Slík skráning sé enda mikilvægur þáttur í gagnsæi og að auka traust á stjórnmálamönnum. 

Samkvæmt leiðbeinandi reglum um þessa nýjung er það á ábyrgð viðkomandi fulltrúa að skrá sína hagsmuni og uppfæra eftir bestu getu og vitund. Lagt er til að skráningu sé lokið eigi síðar en þremur mánuðum eftir kosningu eða skipan. Æskilegt er að fulltrúar skrái upplýsingar um launuð störf samhliða starfi í þágu Akureyrarbæjar, án þess þó að skrá upphæðir launagreiðslna. Eins er kjörnum fulltrúum uppálagt að skrá gjafir sem tengjast störfum í þágu bæjarins, eignir sem eru nýttar í atvinnuskyni og upplýsingar um stjórnarsetu og önnur trúnaðarstörf. 

Með því að smella á nafn bæjarfulltrúa hér á vefsvæði hagsmunaskráningar kemur upp yfirlit. Ef upp kemur síða þar sem stendur Engar skráningar fundust þýðir það að viðkomandi er ekki búinn að fylla út hagsmunaskrá fyrir sig. Lang flestir fulltrúar hafa nú þegar gengið frá sinni skráningu. 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan