Góður gangur í úthlutun byggingarlóða

Hafnarstræti 80 og Austurbrú 10-12
Hafnarstræti 80 og Austurbrú 10-12

Skipulagsráð Akureyrarbæjar samþykkti í vikunni að úthluta lóðum við Austurbrú 10-12 og Hafnarstræti 80. Þetta eru spennandi uppbyggingarreitir í miðbæ Akureyrar.

Í deiliskipulagi er gert ráð fyrir hóteli á lóð Hafnarstrætis 80 og íbúðum á lóð Austurbrúar 10-12, en mögulegt er að breyta því og mæta hugmyndum þróunaraðila að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Skipulagsráð samþykkti að úthluta lóðunum til Luxor ehf. með fyrirvara um að lagðar verði fram nákvæmari tillögur að uppbyggingu innan tveggja mánaða.

Á fundinum var jafnframt samþykkt með sama fyrirvara að úthluta fimm lóðum við Tónatröð (2, 4, 10, 12 og 14) til SS Byggis ehf.

Mikill áhugi á lausum lóðum

Starfsfólk og stjórnendur Akureyrarbæjar hafa fundið fyrir auknum áhuga á lausum byggingarlóðum í sveitarfélaginu að undanförnu og hefur gengið vel að úthluta þeim. Má til dæmis nefna að frá því í sumar hefur 15 einbýlishúsalóðum verið úthlutað í Hagahverfi. Miklar framkvæmdir standa þar yfir og styttist í að hverfið verði fullbyggt. Áætlað er að um tvö þúsund manns búi í Hagahverfi áður en langt um líður.

Á þessari síðu er hægt að nálgast allar helstu upplýsingar um lausar lóðir hjá Akureyrarbæ en þær er einnig hægt að skoða á kortavef. Sérstök athygli er vakin á atvinnuhúsalóðum, til dæmis í Týsnesi, Sjafnargötu og Goðanesi. Einnig má nefna Naustagötu 13, verslunar- og þjónustulóð á frábærum stað milli Naustahverfis og Hagahverfis - spennandi tækifæri í ört vaxandi byggð. 

Uppbygging framundan 

Óhætt er að segja að mikið sé um að vera í skipulagsmálum Akureyrarbæjar um þessar mundir, en á títtnefndum fundi skipulagsráðs í vikunni var lagt til við bæjarstjórn að auglýsa deiliskipulag fyrir Holtahverfi norður - nýtt uppbyggingarsvæði í kringum Krossanesbraut. Deiliskipulagstillagan var lögð fram með nokkrum breytingum til þess að mæta athugasemdum og ábendingum sem bárust í kynningar- og samráðsferli. 

Í gær voru svo kynntar tillögur að breytingum á miðbæjarskipulagi Akureyrar, en stefnt er að því að hefja uppbyggingu sem allra fyrst. Hér eru allar helstu upplýsingar um miðbæjarskipulagið og hér er hægt að horfa á rafrænan kynningarfund sem var streymt á Facebook-síðu bæjarins í gær. 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan