Góður fundur ungmennaráðs og barnamálaráðherra

Ungmennaráð ásamt Ásmundi Einari Daðasyni félags- og barnamálaráðherra að loknum fundi.
Ungmennaráð ásamt Ásmundi Einari Daðasyni félags- og barnamálaráðherra að loknum fundi.

Ungmennaráð Akureyrarbæjar fundaði í gær með Ásmundi Einari Daðasyni félags- og barnamálaráðherra.

Helstu fundarefni voru annars vegar hvað áunnist hefur frá því Akureyrarbær varð barnvænt sveitarfélag og hins vegar hvaða áhrif Covid-19 hefur haft á börn og ungmenni í sveitarfélaginu. Auk þess var rætt um ýmis önnur mál, til dæmis um lækkun kosningaaldurs en ungmennráðið hefur stutt frumvarp þess efnis sem liggur fyrir Alþingi.

Líflegar umræður sköpuðust og voru þátttakendur á fundinum sammála um að þær hefðu verið góðar og gagnlegar. Heyra mátti á ráðherra að hann væri ánægður með framgöngu sveitarfélagsins í málefnum barna og öflugt starf fulltrúa ungmennaráðsins sem hann kallaði brautryðjendur. Sannarlega hvatning til áframhaldandi góðra verka.

Ásmundur Einar heimsótti einnig Giljaskóla og ræddi meðal annars við nemendur í réttindaráði skólans. Giljaskóli var fyrsti grunnskólinn utan höfuðborgarsvæðisins til að hljóta viðurkenningu sem réttindaskóli UNICEF.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan