Góður bær, betri bær í Vísindaskóla unga fólksins

Frá bæjarstjórnarfundi Vísindaskólans
Frá bæjarstjórnarfundi Vísindaskólans

Akureyrarbær er meðal þátttakenda í Vísindaskóla unga fólksins að þessu sinni. Starfsfólk bæjarins heldur námskeið undir yfirskriftinni Akureyri – góður bær, betri bær

Vísindaskóli unga fólksins er nú haldinn í sjötta sinn í Háskólanum á Akureyri. Skólinn er fyrir áhugasöm og fróðleiksfús ungmenni á aldrinum 11-13 ára. Markmiðið er að bjóða upp á fræðandi og skemmtilega afþreyingu. Þátttakendur eru hátt í 70 talsins í nokkrum hópum og sitja eitt námskeið á dag alla vikuna.

Á námskeiði Akureyrarbæjar er fjallað um hvernig sveitarfélag virkar, hver stjórnar því, hvaða þjónusta er veitt, hvað hún kostar og hvaðan peningarnir koma til þess að sinna ýmsum verkefnum. Þátttakendur fá einnig fræðslu og gera verkefni í tengslum við barnvænt sveitarfélag, réttindi barna og möguleika þeirra til að hafa áhrif á Akureyri. Þá er farið á rúntinn í strætó, rætt um umhverfismál, almenningssamgöngur og kíkt á áhugaverða vinnustaði bæjarins, svo sem í Lystigarðinn og Vinnuskólann.

Deginum lýkur svo á bæjarstjórnarfundi Vísindaskólans. Þar kynna börnin fyrir bæjarfulltrúum afrakstur vinnu sinnar, fjalla um það sem er gott við Akureyri og leggja fram tillögur að því sem má bæta.

Þátttakendur eru heilt yfir mjög áhugsamir og er kærkomið fyrir Akureyrarbæ að fá tækifæri til þess að miðla upplýsingum um sveitarfélagið á fjölbreyttan og aðengilegan hátt. Um leið er fróðlegt fyrir starfsfólk og kjörna fulltrúa að eiga samtal við börn á þessum aldri um það hvernig þau vilja sjá bæinn sinn.

Hér eru nokkrar myndir frá fyrstu tveimur dögum í Vísindaskólanum: 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan