Hugmyndasöfnun vegna Kollugerðishaga er lokið

Hugmyndasöfnun vegna fyrirhugaðs íbúðasvæðis við Kollugerðishaga lauk í vikunni. 32 hugmyndir bárust í gegnum nýjan rafrænan samráðsvettvang sveitarfélagsins og verða þær hafðar til hliðsjónar við skipulagsgerðina.

Vinna við deiliskipulag fyrir uppbyggingarsvæði vestan Borgarbrautar, ofan Síðuhverfis og norðan við Giljahverfi, er að hefjast. Gert er ráð fyrir um 750 íbúðum í grænu, vistvænu og nútímalegu hverfi.

Akureyrarbær bauð íbúum að taka þátt í að móta skipulagið og var blásið til hugmyndasöfnunar í gegnum Okkar Akureyrarbæ, undir yfirskriftinni Gerum gott hverfi. Á samráðssvæðinu er hægt að senda inn rökstuddar hugmyndir í máli og myndum, skoða hugmyndir annarra, styðja eða mæla gegn þeim og taka þátt í umræðum.

32 fjölbreyttar hugmyndir

Hugmyndasöfnunin vegna Kollugerðishaga var opin 5.-31. maí. Alls bárust 32 áhugaverðar hugmyndir af ýmsum toga og sköpuðust umræður um nokkrar þeirra. Hugmyndirnar sneru meðal annars að ásýnd svæðisins, samgöngum, leiksvæðum og öðrum afþreyingarmöguleikum, hönnun og tegundum húsnæðis. Hátt í tvö þúsund manns skoðuðu samráðssvæðið meðan á hugmyndasöfnun stóð.

Þótt ekki sé hægt að verða við öllum hugmyndum sem bárust þá verða þær allar teknar til skoðunar, ásamt athugasemdum við skipulagslýsinguna sem var kynnt í lok apríl, og reynt verður að koma til móts við sjónarmið og hugmyndir íbúa eins og kostur er. Stefnt er að því að kynna tillögu að deiliskipulagi og breytingu á aðalskipulagi fyrir íbúum og öðrum hagsmunaaðilum í haust.

Íbúum sem tóku þátt í samráðinu með því að leggja fram hugmyndir eða taka þátt í umræðum um þær er þakkað kærlega fyrir mikilvægt framlag.

Smelltu hér til að skoða vefsvæði með öllum helstu upplýsingum um Kollugerðishaga. 

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan