Gerum eitthvað gott - göngum í skólann

Á leið í skólann. Margir eru um þessar mundir að stíga sín fyrstu skref í umferðinni. Mikilvægt er a…
Á leið í skólann. Margir eru um þessar mundir að stíga sín fyrstu skref í umferðinni. Mikilvægt er að aðrir vegfarendur sýni þeim tillitssemi.

Skólarnir eru að byrja aftur á næstu dögum, auk þess sem margt annað í okkar samfélagi er að færast í fastar skorður eftir sumarfrí. Þess vegna má búast við aukinni umferð á álagstímum.

Allir sem mögulega geta eru eindregið hvattir til að nota virka ferðamáta á leið sinni í og úr vinnu eða skóla, til dæmis að ganga eða hjóla. Vegalengdir á Akureyri eru almennt stuttar, hægt er að velja úr fjölbreyttum gönguleiðum og geta flestir komist fótgangandi eða á hjóli yfir býsna stórt svæði á 20-30 mínútum. Einnig er alltaf frítt í strætó á Akureyri og langoftast gott veður.

Foreldrar grunnskólabarna eru sérstaklega beðnir um að keyra þau ekki í skólann, heldur hvetja þau til að ganga eða hjóla, og draga þannig úr bílaumferð inni í hverfum og við skólana. Þau börn sem eru í grunnskóla í sínu hverfi eru í flestum tilvikum einungis nokkrar mínútur að ganga í skólann.

Munum að margir vegfarendur af yngstu kynslóðinni eru að stíga sín fyrstu skref í umferðinni og það er mikilvægt að sýna þeim tillitssemi.

Hvernig væri að setja sér markmið og gera eitthvað gott á næstunni, til dæmis að nota í auknum mæli virka ferðamáta? Það er betra fyrir heilsuna og fyrir umhverfið.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan