Fundað með Grímseyingum

Halla Björk og Ragnhildur Hjaltadóttir umboðsmaður Norlandair í Grímsey kveðjast að loknum góðum deg…
Halla Björk og Ragnhildur Hjaltadóttir umboðsmaður Norlandair í Grímsey kveðjast að loknum góðum degi í Grímsey.

Á miðvikudag heimsóttu Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, og bæjarfulltrúarnir Gunnar Gíslason og Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar, Grímsey og funduðu með heimafólki.

Gunnar og Halla Björk eiga bæði sæti í verkefnastjórn Brothættra byggða sem hefur það að markmiði að styðja við búsetu fólks í byggðalögum sem þykja standa höllum fæti og stöðva viðvarandi fólksfækkun í smærri byggðakjörnum og í sveitum landsins.

Óformlegir fundir hafa farið fram að undanförnu um stöðu mála í Grímsey og segir Ásthildur að það sem einkenni hugarfar íbúa eyjarinnar sé fyrst og fremst þrautsegja og eljusemi.

"Grímsey er stórkostlegur staður sem heilsaði okkur með fallegu veðri. Það er ánægjulegt að finna hversu fastir fyrir Grímseyingar eru. Fólkið þar lætur ekki deigan síga þótt á ýmsu hafi gengið í atvinnumálunum. Við munum halda áfram að ræða saman um stöðuna og leita ráða til að treysta byggðina við heimskautsbauginn," segir Ásthildur Sturludóttir um heimsóknina út í Grímsey.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan