Frítt í Hríseyjarferjuna út júní

Mynd: Ragnar Hólm.
Mynd: Ragnar Hólm.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkti á fundi sínum miðvikudaginn 10. júní sl. að veita allt að tveimur milljónum króna í styrk til Ferðamálafélags Hríseyjar til að gera því kleift að fella niður fjargjöld í Hríseyjarferjuna Sævar í samstarfi við rekstraraðila hennar. Frítt verður í ferjuna frá og með deginum í dag til og með 30. júní nk.

Þessi ákvörðun er hugsuð til að styðja við ferðaþjónustu í eyjunni og kveikja áhuga Íslendinga á að heimsækja Hrísey en nýleg könnun leiddi í ljós að um 46% þjóðarinnar hafa aldrei til Hríseyjar komið og innan við 18% hafa heimsótt Hrísey á síðustu fimm árum.

Í Hrísey felast fjölmörg tækifæri til ferðaþjónustu og útivistar. Meðal þeirrar starfssemi sem tengist ferðaþjónustu í eyjunni eru gistiheimili, tjaldsvæði, veitingastaðir, kaffihús, tvö söfn, sundlaug og skoðunarferðir með dráttarvél (aðeins í boði á sumrin fyrir hópa). Fuglalífið í eyjunni er fjölbreytt en um 40 fuglategundir verpa í Hrísey og aðstaða til fuglaskoðunar er góð. Einnig eru góðar gönguleiðir um eyjuna þvera og endilanga.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan