Frístundastyrkur fyrir 2.306 börn og ungmenni

Á æfingu hjá Fimleikafélaginu.
Á æfingu hjá Fimleikafélaginu.

Árið 2016 var frístundastyrkur Akureyrarbæjar nýttur fyrir tómstundaiðju 2.306 barna og unglinga á aldrinum 6-17 ára en það ár voru 3.196 börn og unglingar skráð til heimilis á Akureyri. Það þýðir að 72% barna og unglinga á þessum aldri notaði 98,7% af þeim styrk sem þeim stóð til boða. Frístundastyrkurinn var notaður fyrir alls 36.405.315 kr. 2016 sem samsvarar að meðalstyrkupphæð þessara 2.306 barna og unglinga var 15.787 kr. Frístundastyrkur árið 2016 var 16.000 kr. og því afar vel nýttur.

Kynjahlutfallið millli skráninga er 51% drengir og 49% stúlkur. Flestar skráningar voru hjá Fimleikafélagi Akureyrar en rúm 58% allra skráninga voru hjá þremur félögum: FIMAK, Þór og KA. Þessi þrjú félög fengu 58% af því fjármagni sem greitt var út í frístundastyrki.

Af öllum skráningum 2016 voru flestar skráningar hjá 6, 7, 9 og 10 ára börnum en áberandi fæstar skráningar voru hjá tveimur elstu árgöngunum. Árgangur 2001 er fyrsti árgangurinn sem fær frístundastyrk öll árin frá 6-17 ára. Gat kom í frístundastyrk til árganga 1999 og 2000 þegar styrkurinn náði bara til 13 ára aldurs sem gæti verið hluti af skýringunni á lítilli nýtingu elstu árganganna.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan