Fréttaannáll Akureyrarbæjar 2020

Afmæliskertin á Ráðhúsinu. Afmæli bæjarins var fagnað á nýstárlegan hátt í fyrra. Ljósmynd: Auðunn N…
Afmæliskertin á Ráðhúsinu. Afmæli bæjarins var fagnað á nýstárlegan hátt í fyrra. Ljósmynd: Auðunn Níelsson.

Nýliðið ár var sögulegt eins og allir vita. Jafnvel þótt mörgu hafi verið aflýst og flest hafi verið með öðru sniði en venjulega þá var árið 2020 býsna viðburðaríkt hjá Akureyrarbæ, líkt og 465 fréttir og tilkynningar sem voru birtar hér á heimasíðunni bera vott um.

Fréttir af heimsfaraldrinum og tengdum ráðstöfunum voru eðli málsins samkvæmt áberandi, en þrátt fyrir það komst ýmislegt annað á dagskrá. Hér hefur verið tekið saman yfirlit yfir fréttir sem varpa ljósi á starfsemi síðasta árs. Þetta er ekki tæmandi listi, aðeins nokkur dæmi:

Janúar

Frístundastyrkur Akureyrarbæjar var hækkaður upp í 40 þúsund krónur á hvern iðkanda og þar með hafði upphæðin fjórfaldast á fimm árum. Nánar hér

Aldís Kara Bergsdóttir listhlaupakona úr Skautafélagi Akureyrar og Viktor Samúelsson úr Kraftlyftingafélagi Akureyrar voru kjörin íþróttafólk Akureyrar. Nánar hér. 

Ný útgáfa heimasíðunnar Visitakureyri.is fór í loftið. Þar eru upplýsingar um afþreyingarkosti í sveitarfélaginu, veitingastaði og gistingu, samgöngur og annað sem nýst getur gestum og heimafólki.

Sagt var frá niðurstöðum könnunar sem gerð var meðal ferðafólks í Hrísey. Könnunin leiðir í ljós að það eru helst merktar gönguleiðir, náttúran, lega eyjunnar og friðsæld sem dregur fólk til staðarins. Nánar hér. 

Niðurstöður úr losunarbókhaldi Akureyrarbæjar fyrir árið 2018 kynntar. Einnig var fjallað um niðurstöður úr þjónustukönnun Gallup. Níu af hverjum tíu Akureyringum eru ánægðir með sveitarfélagið sem stað til að búa á. Jákvæður og marktækur munur er á ánægju með þjónustu leikskóla og þjónustu við eldri borgara frá árinu á undan. 

Febrúar

Rekstur Glerárvirkjunar II gengur vel og með sama áframhaldi er talið að hún borgi sig upp á 15-20 árum. Akureyrarbær fékk í byrjun febrúar afhenta fyrstu leigugreiðslu vegna virkjunarinnar. Nánar hér

Aðsóknartölur í Sundlaug Akureyrar fyrir árið 2019 kynntar. Alls voru gestir tæplega 444 þúsund árið 2019 og höfðu aldrei verið fleiri á einu ári. 

Fyrsti þáttur af Akureyringum, nýju hlaðvarpi Akureyrarbæjar, fór í loftið.

Akureyrarbær var fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að hefja vegferð í átt að samfélagi sem er vinveitt og meðvitað um þarfir einstaklinga með heilabilun og aðstandendur þeirra. Öldrunarheimili Akureyrar og Alzheimersamtökin vinna saman að verkefninu. Nánar hér

Heimsmeistaramót kvenna í íshokkí var haldið á Akureyri og hófst í lok febrúar. 

Sagt var frá helstu niðurstöðum samráðs við börn og ungmenni um almenningssamgöngur á Akureyri sem og niðurstöðum Gallup könnunar meðal íbúa um sama málefni. Óskir um betra leiðakerfi og tíðari ferðir strætó voru áberandi. Í kjölfarið hófst vinna við endurskoðun leiðakerfisins. 

Mars

Stóra upplestrarkeppnin haldin í tuttugasta sinn á Akureyri. Sólon Sverrisson úr Naustaskóla hreppti 1. sætið. Nánar hér

Bæjarstjórnarfundur unga fólksins haldinn í Hofi. Ungmennaráð undirbjó dagskrá fundarins og voru fjölbreytt málefni til umræðu, svo sem geðheilbrigði ungmenna, jöfn tækifæri óháð búsetu, umhverfismál og tæknilæsi. 

Gatan sem gróðrarstöðin í Kjarnaskógi stendur við fékk nafnið Skógargata, eftir samráð við nemendur í Naustaskóla. Nánar hér

Í mars voru fréttir og tilkynningar í tengslum við heimsfaraldurinn tíðar, enda hefur verið lögð rík áhersla á að upplýsa íbúa eins vel og kostur er um áhrif Covid-19 og samkomutakmarkana á þjónustu og starfsemi sveitarfélagsins. Meðal annars var greint var frá almennum varúðarráðstöfunum, heimsóknarbanni á Öldrunarheimilum Akureyrar og síðar opnun farsóttardeildar. Fjallað var um fyrstu viðbrögð við samkomubanni og um áhrif á skólahald. Þessar fréttir voru meðal þeirra mest lesnu á árinu. Þá var búið til sérstakt vefsvæði og uppfært reglulega með nýjustu upplýsingum.

En fátt er svo með öllu illt að ekki felist í því tækifæri. Hjá Öldrunarheimilum Akureyrar voru tæknilausnir notaðar í auknum mæli til að létta fólki lífið og eiga í samskiptum við sína nánustu í heimsóknabanninu. Reyndar voru tekin stór skref í þróun rafrænnar stjórnsýslu og þjónustu á öllum sviðum bæjarins. 

Söfnin á Akureyri brugðust við ástandinu með því að auka virkni í netheimum, einkum á samfélagsmiðlum undir yfirskriftinni #safniðísófann og buðu upp á efni og viðburði til að njóta hvar og hvenær sem er. 

Ný mannréttindastefna Akureyrarbæjar undir yfirskriftinni Allskonar Akureyri var einnig kynnt í mars. Leiðarstefin eru fjölbreytni, jöfn meðferð og vernd gegn mismunun í víðum skilningi. Nánar hér. 

Apríl

Akureyrarbær gaf út rafræna handbók um verklag og viðbragðsáætlun þegar grunur vaknar um ofbeldi gegn börnum. Auk þess voru sett upp rafræn tilkynningarform (hnappar) á heimasíðuna sem auðvelda starfsfólki, almenningi og ekki síst börnunum sjálfum að tilkynna til barnaverndar. Nánar hér. 

Mælingar á umferð gangandi og hjólandi vegfarenda á Drottningarbrautarstígnum við Pollinn sýndu 32% aukningu í mars miðað við meðaltal áranna 2016-2019. Þá mátti vera ljóst að Akureyringar hefðu tekið áskorun um aukna útivist og hreyfingu á tímum samkomubanns. 

Bæjarráð samþykkti 2. apríl fyrstu aðgerðaáætlun Akureyrarbæjar til að bregðast við samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum Covid-19. Nánar hér. 

Fyrsta skóflustunga tekin að leikskólanum Klöppum við Glerárskóla á Akureyri.

Vorkoma Akureyrarstofu var haldin í netheimum. Veittar voru ýmsar viðurkenningar og tilkynnt að bæjarlistamaður Akureyrar árið 2020 er Ásdís Arnardóttir sellóleikari.  

Tillaga að nýju stígakerfi Akureyrarbæjar var kynnt í lok apríl. Í skipulaginu er meðal annars gert ráð fyrir auknum aðskilnaði gangandi og hjólandi umferðar með uppbyggingu á nýjum stofnstígum og endurbótum á þeim sem fyrir eru. Nánar hér. 

Maí

Bæjarstjórn samþykkti að verja allt að 40 milljónum króna í aðgerðir til að styðja við ferða- og menningarstarfsemi á Akureyri. Síðar í mánuðinum var auglýst eftir umsóknum í viðburða- og vöruþróunarsjóð sem var liður í aðgerðunum sem var ætlað að bregðast við hruni í ferðaþjónustu, menningarstarfsemi og viðburðahaldi vegna Covid-19. 

Árleg hreinsunarvika á Akureyri var haldin í maí, en þá voru bæjarbúar hvattir til að taka höndum saman við að hreinsa bæinn eftir veturinn. Á sama tíma stóð vorhreinsun á vegum sveitarfélagsins sem hæst. 

Tilrauna- og átaksverkefni var kynnt um nýtingu moltu í landbúnaði, skógrækt og landgræðslu á Norðurlandi. Nánar hér. 

Fjallað var um aðgerðir til að auka umferðaröryggi á Hörgárbraut milli Glerár og Undirhlíðar. 

Akureyrarbær varð fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að hljóta viðurkenningu Barnvænna sveitarfélaga. Nánar hér. 

Júní

Í byrjun mánaðarins var sagt frá mikilli fjölgun í Vinnuskóla Akureyrar og fjölda umsókna um atvinnuátaksverkefni fyrir ungmenni. 

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti að hækka gjöld vegna stöðubrota, þegar ökutækjum er lagt ólöglega, frá og með 1. júlí. Þar með urðu gjöldin í samræmi við sektir sem lögreglan leggur á fyrir sams konar brot. Nánar hér. 

Stjórn Akureyrarstofu samþykkti að veita styrk svo að hægt væri að fella niður fargjöld í Hríseyjarferjuna Sævar. Frítt var í ferjuna í júní og vakti það mikla lukku og studdi við frábært ferðamannasumar í eyjunni. 

Þjóðhátíðardagurinn 17. júní var haldinn með óhefðbundnu sniði á Akureyri vegna aðstæðna. Dagskránni var dreift um bæinn og var sérstakur blómabíll á ferðinni. 

Bæjarráð samþykkti að ráðast í gagngera endurnýjun á húsnæði Lundarskóla. Kostnaður við aðgerðirnar eru áætlaður um 1,6 milljarðar króna. 

Í lok júní var haldinn líflegur íbúafundur í félagsheimilinu Múla í Grímsey á vegum Akureyrarbæjar og SSNE. Þar sköpuðust uppbyggilegar umræður um hins ýmsu mál. 

Júlí

Júlímánuður byrjaði með góðum tíðindum. Nýr þjónustukjarni fyrir fatlað fólk var vígður í Klettaborg 1. júlí. Þjónustukjarninn er nýtt heimili sex einstaklinga sem þurfa aðstoð við daglegar athafnir, en aðstaða þeirra og starfsfólks gjöbreytist til hins betra. Þennan sama dag var ný brú yfir vestari kvísl Eyjafjarðarár, Vesturbrú, vígð við hátíðlega athöfn. Brúin er mikil samgöngubót fyrir útivistarfólk. 

 

Í byrjun mánaðarins hófst einnig vinna við tengingu nýrrar hreinsistöðvar fráveitu við fráveitukerfið á Akureyri. 

Búsetusvið fékk styrk frá félagsmálaráðuneytinu til að ráða þrjá starfsmenn sem höfðu það verkefni að sinna símhringingum til eldra fólks. Markmiðið var að huga að líðan eldra fólks og gefa því tækifæri til að spjalla um stöðu sína á erfiðum tímum. 

Stólalyftan Fjarkinn í Hlíðarfjalli var ræst að nýju. Göngu- og hjólreiðafólk var hvatt til að taka sér far með lyftunni og njóta útivistar og hreyfingar í fjallinu. 

Í ljósi nýjustu frétta af útbreiðslu Covid-19 faraldursins á Íslandi var fjölskylduhátíðinni Einni með öllu á Akureyri aflýst þann 30. júlí. 

Ágúst

Akureyrarbær og Heilbrigðisstofnun Norðurlands hafa efnt til samstarfs um aukna samþættingu heimaþjónustu og heimahjúkrunar með hjálp Memaxi samskipta- og skipulagslausnarinnar. Þetta er liður í markvissri innleiðingu velferðartækni hjá sveitarfélaginu. Nánar hér. 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ákvað að fela Heilbrigðisstofnun Norðurlands að taka við rekstri Öldrunarheimila Akureyrar. Bæjarráð samþykkti fyrr á árinu að óska ekki eftir framlengingu á rekstrarsamningi. 

Tilkynnt var að kvennaathvarf yrði opnað á Akureyri þann 28. ágúst. Því er ætlað að þjónusta konur og börn sem ekki geta búið heima hjá sér vegna ofbeldis. 

Afmæli Akureyrarbæjar var fagnað á nýstárlegan hátt sökum aðstæðna. Aflýsa þurfti Akureyrarvöku, en í staðinn var boðið upp á heillandi ljósaverk á byggingum og opnum svæðum, bílabíó og listsýningar.

September

Skipulagsmál og framkvæmdir voru fyrirferðarmikil fréttaefni í september.

Akureyrarbær kynnti tillögu að deiliskipulagi fyrir Holtahverfi norður – nýtt uppbyggingarsvæði í kringum Krossanesbraut. Meirihluti bæjarstjórnar samþykkti jafnframt að auglýsa aðalskipulagsbreytingu fyrir hluta Oddeyrar sem felur í sér að hluti athafnasvæðis verði skilgreindur sem íbúðarsvæði og hæð einstakra bygginga geti orðið allt að 25 metrar yfir sjávarmáli. Þá samþykkti bæjarstjórn einnig að auglýsa nýtt stígaskipulag Akureyrarbæjar. 

Og talandi um stíga. Framkvæmdir hófust við nýjan göngustíg meðfram Hörgárbraut sem markar tímamót. Á svipuðum tíma hófust framkvæmdir við endurbætur á gatnamótum Hörgárbrautar og hlíðarbrautar. 

Bæjarstjórn samþykkti með 11 samhljóða atkvæðum að forgangsröðun þverpólitísks hóps um uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri verði höfð til hliðsjónar við undirbúning fjárfestingaáætlunar bæjarins. Forgangslistinn telur 11 verkefni og er heildarkostnaður við þau gróflega metinn á 6.750 milljónir króna. Nánar hér.

Og meira af bæjarstjórn, því að kjörnir fulltrúar í bæjarstjórn Akureyrar ákváðu að afnema minni- og meirihluta það sem eftir lifir kjörtímabils. Markmiðið að mynda breiða samstöðu vegna sérstakra aðstæðna í kjölfar heimsfaraldurs og í rekstri sveitarfélagsins. 

Október

Neyðarstig almannavarna vegna Covid-19 tók gildi í byrjun október og var greint frá helstu áhrifum á þjónustu bæjarins, um leið og íbúar og aðrir landsmenn voru hvattir til að gæta ítrustu varkárni. 

Fjallað var um framkvæmdir við leikskólann Klappir við Glerárskóla sem ganga samkvæmt áætlun.

Fyrstu vísbendingar benda til þess að skilti með upplýsingum um raunhraða ökutækja, sem voru sett við Hörgárbraut, geri gagn með því að stuðla að lækkun umferðarhraða. 

Folf við Heimskautsbaug: Í Grímsey var settur upp níu körfu folfvöllur á vegum Kiwanisklúbbsins Gríms. 

Fyrstu tillögur að nýju leiðaneti Strætisvagna Akureyrar litu dagsins ljós og hófst þar með víðtækt kynningar- og samráðsferli. Nánar hér. 

Nóvember

Starfsmenn Umhverfismiðstöðvar byrjuðu að tendra jólaljósin vítt og breitt um bæinn í byrjun nóvember, nokkru fyrr en venjulega, og var skorað á bæjarbúa að gera slíkt hið sama.  

Umsóknum í gegnum þjónustugátt Akureyrarbæjar fjölgaði mikið á árinu 2020 samhliða auknum nýtingarmöguleikum. Nánar hér. 

Þann 20. nóvember, á alþjóðlegum degi réttinda barnsins, hlaut Giljaskóli viðurkenningu sem Réttindaskóli UNICEF

Aldrei hafa fleiri sent inn verk til þátttöku í ritlistakeppninni Ungskáld sem hefur það að markmiði að efla ritlist og skapandi hugsun hjá ungu fólki á aldrinum 16-25 ára. Magnús Orri Aðalsteinsson hlaut 1. verðlaun fyrir ljóðið Sálarlaus hafragrautur. 

Nýtnivikan var haldin í lok nóvember og var þemað ósýnilegur úrgangur. Vegna Covid-19 voru viðburðir á vegum Akureyrarbæjar meira og minna rafrænir að þessu sinni. 

Ljósin á jólatrénu á Ráðhústorgi frá vinabænum Randers í Danmörku voru tendruð að viðstöddu fámenni, sökum aðstæðna, en þó í beinni útsendingu í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins. 

Desember

Á bæjarstjórnarfundi 1. desember var samþykkt tillaga um sameiningu fjölskyldusviðs og búsetusviðs í eitt velferðarsvið. Sameiningin tók gildi um áramót. Nánar hér

„Ég fagna því mjög að þessi framkvæmd sé komin af stað," sagði Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri í tengslum við undirritun á samningi um byggingu 60 rýma hjúkrunarheimilis við Vestursíðu 9. Áætlað er að heimilið verði tilbúið í lok árs 2023. 

Kynntar voru tillögur að breytingum á miðbæjarskipulagi sem byggja á niðurstöðum þverpólitísks stýrihóps með fulltrúum allra flokka í bæjarstjórn. Stefnt er að því að hefja uppbyggingu sem allra fyrst. 

Fjallað var um góðan gang í úthlutun byggingarlóða á Akureyri, en starfsfólk og stjórnendur bæjarins hafa fundið fyrir auknum áhuga á lausum lóðum að undanförnu. Í desember var samþykkt að úthluta lóðum við Austurbrú 10-12 og Hafnarstræti 80, en þetta eru spennandi uppbyggingarreitir í miðbænum. 

Endurgerð gamla þjóðvegarins um Krókeyri hófst líka í desember ásamt framkvæmdum við nýjan göngu- og hjólastíg frá Miðhúsabraut austan Skautahallar og suður fyrir Gömlu-Gróðrarstöðina. Þessi nýi stígur verður hluti af stórum stofnstíg í gegnum allan bæinn frá Hörgársveit að Eyjafjarðarsveit. Nánar hér. 

Bæjarstjórn samþykkti fjárhagsáætlun 2021-2024 að lokinni síðari umræðu, en gert er ráð fyrir miklum halla á rekstri sveitarfélagsins á næsta ári. Starfsemi og stærstu verkefni næsta árs voru kynnt á rafrænum íbúafundi. Nánar hér. 

Og milli jóla og nýárs bárust sérstaklega góðar fréttir frá Akureyrarbæ. Annars vegar var sagt frá því að nýr einstaklingsklefi í Sundlaug Akureyrar hefði verið tekinn í notkun sem er mikilvægt skref í að bæta aðgengi allra að þessari vatnaparadís. Hins vegar voru íbúar á Öldrunarheimilum Akureyrar bólusettir gegn Covid-19 í fyrra sinn og var það mikilvægt skref í baráttunni gegn vágestinum. 

Takk fyrir samfylgdina árið 2020!

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan