Fréttaannáll Akureyrarbæjar 2019

Frá Akureyrarvöku 2019
Frá Akureyrarvöku 2019

Árið 2019 var viðburðaríkt hjá Akureyrarbæ. Alls voru 480 fréttir og tilkynningar birtar á heimasíðu sveitarfélagsins í fyrra. Hér hefur verið tekið saman yfirlit yfir nokkrar fréttir sem vöktu athygli árið 2019. 

Þarna kennir ýmissa grasa og er mikil fjölbreytni í efnistökum, sem varpar ef til vill ljósi á margþætt verkefni sveitarfélagsins. Nýr leikskóli, metanstrætisvagn, óveður, nafn Akureyrar, hjólakeppni og nítjánþúsundasti íbúinn er meðal þess sem kemur við sögu. 

Janúar

Í byrjun árs fór mikið fyrir fréttum af börnum og íþróttafólki. 

Íþróttakona Akureyrar 2018 var kjörin Hulda B. Waage úr Kraftlyftingafélagi Akureyrar en Viktor Samúelsson, einnig úr Kraftlyftingafélagi Akureyrar, var kjörinn íþróttakarl Akureyrar. 

Sagt var frá hækkun á frístundastyrk Akureyrarbæjar og átaki gegn matarsóun í Lundarskóla. 

Akureyrarbær átti 28 fulltrúa á Alþjóðavetrarleikum barna í Lake Placid í Bandaríkjunum.

Febrúar

Vel sóttir og gagnlegir íbúafundir haldnir í Hrísey og Grímsey í tengslum við verkefnið Brothættar byggðir. Rætt um stöðu verkefnisins og ýmsar leiðir og aðgerðir til að styrkja byggðirnar.

Fjallað um niðurstöður úr þjónustukönnun Gallup. Ánægja íbúa Akureyrarbæjar jókst milli ára í 11 af 13 þjónustuþáttum sem spurt var um og bendir til þess að meginþorri íbúa sé ánægður með sveitarfélagið sem stað til að búa á. 

Merki Barnvænna sveitarfélaga UNICEF afhent Akureyrarbæ. Bæjarstjórn hafði áður samþykkt aðgerðaáætlunar vegna innleiðingar á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. 

Mest lesna fréttin í febrúar var um fyrsta NPA-samninginn á Akureyri. Sigrún María Óskarsdóttir, sálfræðinemi, var fyrst til að skrifa undir samning við búsetusvið Akureyrarbæjar um notendastýrða persónulega aðstoð. 

Mars

Akureyrarbær og Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð undirrita samstarfssamning um loftslagsyfirlýsingu. Í samstafinu felst kynning til fyrirtækja og stofnana, fræðsla og hvatning til að taka þátt.

Fleiri mikilvæg skref í umhverfismálum voru stigin í mars, en Akureyrarbær fékk afhentan nýjan metanstrætisvagn og þann þriðja sinnar tegundar í flotanum. Bæjarfulltrúum og starfsfólki umhverfis- og mannvirkjasviðs var boðið í stuttan reynsluakstur. 

Þá var fjallað um tölur. Annars vegar var sagt frá ársreikningum Akureyrarbæjar fyrir árið 2018, sem sýndu fram á rekstur í jafnvægi, og hins vegar var greint frá góðum árangri tveggja nemenda í Síðuskóla í Pangea stærðfræðikeppninni.

Apríl

Apríl hófst með góðum og mikilvægum tíðindum frá Akureyri. Fyrsta útibú Barnahúss utan höfuðborgarsvæðisins var opnað í Glerárgötu á Akureyri sem felur í sér byltingu í þjónustu við börn.  Sama dag var opnuð þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi, Bjarmahlíð, í húsnæði Gamla spítala við Aðalstræti. 

Aðgerðaáætlun gegn hávaða á Akureyri til ársins 2023, sem bæjarstjórn samþykkti í lok mars, var kynnt í apríl og vakti þónokkra athygli. 

Úrslit kunngerð í samkeppni akureyrskra ungskálda um skapandi skrif. Aldís Embla Björnsdóttir varð hlutskörpust og hlaut verðlaun fyrir smásögu sína Einræðisherra. 

Fjallað um gullvetur í íþróttalífi á Akureyri. KA náði sögulegu afreki sem handhafi Íslands,- deildar- og bikarmeistaratitla karla og kvenna í blaki. Árangurinn var ekki síðri hjá Skautafélagi Akureyrar þar sem karla- og kvennalið félagsins í íshokkíi sigruðu öll mót ársins. 

Tónlistarmaðurinn, rithöfundurinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Pálmi Gunnarsson valinn bæjarlistamaður Akureyrar 2019-2020. Tilkynnt var um valið á Vorkomu stjórnar Akureyrarstofu í lok apríl. 

Maí

Akureyringar hvattir til að takmarka lausagöngu katta eins og unnt er, sérstaklega yfir nóttina, til að verja fugla á varptíma. Eins voru hundaeigendur beðnir um að sleppa ekki hundum lausum á varpsvæðum. 

Miklar framkvæmdir við þungar umferðaræðar á Akureyri, við Glerárgötu og Þórunnarstræti. Bæði á vegum Akureyrarbæjar og Vegagerðarinnar við endurbætur á gatnamótum en á sama tíma var Norðurorka að endurnýja hitaveitulagnir í Þórunnarstræti. 

Flugfélagið Transavia hóf beint flug til Akureyrar frá Rotterdam í Hollandi með ferðafólk á vegum ferðaskrifstofunnar Voigt Travel. Við þetta tilefni var tilkynnt að ákveðið hefði verið að fljúga frá Akureyri til Amsterdam næsta vetur. 

Í lok maí var haldinn íbúafundur í Hrísey þar sem hugmyndafræði Cittaslow-hreyfingarinnar var kynnt. Íbúum leist vel á og töldu almennt að hugmyndafræðin hentaði Hrísey vel. 

Júní

Á fundi bæjarstjórnar 4. júní var samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum að breyta heiti sveitarfélagsins úr Akureyrarkaupstað í Akureyrarbæ. 

Umfjöllun um verkefnið Áður en ég dey á Amtsbókasafninu á Akureyri. Fallegur vettvangur þar sem fólki gefst færi á að horfa yfir farinn veg, líta til framtíðar og deila draumum, óskum og löngunum í opinberu rými. 

Mælingar á á umferð um helstu götur bæjarins sýna að umferðin um Þingvallastræti hefur smám saman minnkað eftir að nýjar og mikilvægar tengibrautir voru opnaðar. 

Margir kættust þegar stór og glæsileg hjólabraut var sett upp á skólalóð Oddeyrarskóla. Hjólabrautin er ætluð iðkendum á hlaupahjólum, reiðhjólum og hjólabrettum á öllum aldri. Flott viðbót við fjölbreytta aðstöðu Akureyrarbæjar, sem er jú heilsueflandi samfélag. 

Júlí

Greint var frá tímamótasamningi um öldrunarþjónustu á Akureyri. Samningurinn milli Öldrunarheimila Akureyrar og Sjúkratrygginga Íslands gildir um rekstur og nýsköpunar- og þróunarverkefni. Með samningnum skapast svigrúm til að auka sveigjanleika í dagþjálfun og skammtímadvöl. 

Fjallað um Plastiðjuna Bjarg Iðjulund (PBI) og góða verkefnastöðu. Tekjur hafa aukist um rúm 26% frá árinu 2016. 

Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur færði öllum leikskólum Akureyrarbæjar gjöf með þjálfunarefninu Lærum og leikum með hljóðin sem er ætlað að bæta framburð, auka orðaforða og undirbúa börn fyrir lestur. 

Þegar sumarið náði hámarki var lokið við að endurnýja gervigras á tveimur sparkvöllum bæjarins, við Lundarskóla og Giljaskóla, auk blakvallarsvæðis við Lundarskóla. 

Í lok júlí birti Akureyrarbær umfjöllun um fjölda sumarstarfsfólks. Samanlagt voru ríflega 850 manns í alls kyns sumarstörfum hjá sveitarfélaginu. 

Ágúst

Unnið að því hörðum höndum að endurnýja umferðarljós í bænum. Með nýjum ljósum er vonast til að öryggi vegfarenda aukist enn frekar.  

Fræðslumálin voru fyrirferðarmikil á heimasíðunni um miðjan ágúst. Mikið líf og fjör var í skólaleik, tveggja vikna aðlögun fyrir börn sem eru að byrja í fyrsta bekk, og svo hófst hefðbundið skólastarf að loknu sumarfríi. Ríflega 2.700 börn eru við leik og störf í grunnskólum Akureyrar í vetur og 950 í leikskólum. Þá var einnig greint frá auknum niðurgreiðslum til foreldra 16 mánaða barna og eldri sem nýta þjónustu dagforeldra og hafa ekki fengið boð um leikskólavist.

Tvær af mestu lesnu fréttum ágústmánaðar snerust um ný nöfn. Skipulagsráð samþykkti að götuheiti Sunnutraðar á Akureyri yrði breytt í Búðartröð, en ástæðan var fyrst og fremst sú að önnur gata í Hrafnagilshverfi í Eyjafjarðarsveit ber nafnið Sunnutröð. 

Staðfest var þann 29. ágúst, á 157 ára afmæli Akureyrar, að formlegu heiti sveitarfélagsins hefði verið breytt úr Akureyrarkaupstað í Akureyrarbæ. 

Mánuðinum lauk svo með vel heppnaðri Akureyrarvöku, sem haldin var í fínu veðri, þvert á spár, og var vel mætt á fjölbreytta og skemmtilega viðburði. 

September

September var sérlega viðburðaríkur mánuður hjá Akureyrarbæ. Nýr leikskóli, Árholt, tók til starfa að nýju eftir sextán ára hlé og Glerárskóli var opnaður eftir allsherjar endurbætur á B-álmu. Húsnæðið er afar glæsilegt eftir þessar miklu framkvæmdir. 

Nítjánþúsundasti íbúi Akureyrar, Benedikt Árni Birkisson, kom ásamt foreldrum sínum og systur á fund Ásthildar Sturludóttur bæjarstjóra og Höllu Bjarkar Reynisdóttur, forseta bæjarstjórnar. Bærinn færði fjölskyldunni góðar gjafir, enda er afar ánægjulegt að Akureyringum fjölgi og 19 þúsund íbúa múrinn hafi verið rofinn. 

Þremur nýjum útibókasöfnum var komið upp á Akureyri og þau vígð á Alþjóðadegi læsis. Þar eru barnabækur sem gestir og gangandi geta notið á ferð sinni um bæinn.  Um svipað leyti var nokkrum bílastæðum breytt í reiðhjólastæði í tilefni af samgönguvikunni á Akureyri, sem er ætlað að hvetja fólk til að nota umhverfisvæna og virka samgöngumáta. Samgönguvikan heppnaðist vel og var meðal annars blásið til ljósmyndasamkeppni undir yfirskriftinni göngum'etta. Á fjórða tug mynda bárust í keppnina en Inga Dagný Eydal bar sigur úr býtum og hlaut glæsileg verðlaun. 

Fjallað var um góðan árangur Akureyringa í flokkun og endurvinnslu. Í fyrra féllu til 7.600 tonn af sorpi frá heimilum á Akureyri sem gera um 400 kíló á hvern íbúa. Þriðjungur af heimilisúrgangi fer til urðunar en annað er endurunnið á einn eða annan hátt. 

Á Degi íslenskrar náttúru, 16. september, undirritaði Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri loftslagsyfirlýsingu Festu og Akureyrarbæjar ásamt fjölmörgum fyrirtækjum á Akureyri.

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti samhljóða á fundi um miðjan september endurskoðaðar siðareglur, samskiptasáttmála og leiðbeiningar um hagsmunaskráningu kjörinna fulltrúa, byggt á tillögum starfshóps sem var skipaður í kjölfar #metoo umræðu í samfélaginu. 

Október

Frábær árangur Öldrunarheimila Akureyrar í alþjóðlegri hjólakeppni vakti verðskuldaða athygli. Lið Hlíðar endaði í 5. sæti og Lögmannshlíð í 38. sæti. Alls tóku 194 lið þátt í keppninni. Okkar fólk hjólaði samtals yfir 5.000 kílómetra. Fjöldi manns var samankominn á hátíðlegri verðlaunaafhendingu 1. október.

Bæjarstjórn samþykkti tillögu að skipulagslýsingu vegna breytingar á aðalskipulagi Akureyrar á Oddeyri. Haldinn var fjölsóttur kynningarfundur í menningarhúsinu Hofi þar sem hugmyndir að skipulagsbreytingum og uppbyggingu á svæðinu voru kynntar. 

„Það mætti halda að ég væri eitthvert stórmenni" sagði Stefán Sigurðsson þegar Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri heimsótti hann í tilefni af 100 ára afmæli Stefáns. 

Áhugaverðar niðurstöður könnunar um Hrísey sem Gallup gerði fyrir Akureyrarstofu. Þar kemur meðal annars fram að helmingur landsmanna hafi heimsótt Hrísey um ævina og 17% á síðustu fimm árum. Ljóst er að mikil tækifæri eru í markaðssetningu Hríseyjar. 

Nóvember

Akureyrarbær var í byrjun nóvember annað tveggja íslenskra sveitarfélaga til að hljóta viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar 2019. Tilgangurinn er meðal annars að auka jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja og stofnana og að virkja íslenskt atvinnulíf til að verða fyrirmynd jafnfréttis fyrir aðrar þjóðir. 

Mikið var fjallað um svifryksmengun og hálkuvarnir í nóvember. Því miður þurfti ítrekað að vara við mikilli svifryksmengun enda var kalt í veðri, hægur vindur og þurrar götur í þónokkurn tíma. Ýmsum aðferðum var beitt til að draga úr mengun og skapaðist umræða í samfélaginu um salt, sjó og óhreina bíla. Á heimasíðu bæjarins voru tekin saman svör við algengum spurningum í tengslum við þetta.

Tvær áhugaverðar skýrslur á vegum sveitarfélagsins voru birtar. Annars vegar skýrsla um uppbyggingu íþróttamannvirkja og hins vegar skýrsla starfshóps um leiðir til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. 

Vika barnsins var haldin með fjölbreyttum viðburðum. Á alþjóðlegum degi réttinda barna, 20. nóvember, afhentu fulltrúar ungmennaráðs bæjarstjóra þykkan bunka af óskum og hugmyndum grunnskólabarna. 

Haldinn var íbúafundur um fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar undir yfirskriftinni hvert fara peningarnir okkar? Í framhaldinu voru tekin saman svör við spurningum sem helst brunnu á fundargestum, auk nokkurra annarra sem tókst ekki að svara á fundinum, og birt á heimasíðunni. 

Desember

Óveðrið í desember hafði eðli málsins samkvæmt áhrif á efnistök Akureyri.is, enda var mikil ófærð, samgöngutruflanir, lokanir og röskun á þjónustu. Mest lesna fréttin á heimasíðunni árið 2019, Skólahald fellur niður í fyrramálið, var birt 10. desember. Það reyndi mikið á snjómokstursfólk, en þegar mest lét unnu um 50 manns á um 40 snjóruðningstækjum nánast allan sólarhringinn og stóðu sig frábærlega. 

Í kjölfar óveðursins ákvað bæjarstjórn Akureyrar að styrkja björgunarsveitina Súlur á Akureyri um fjórar milljónir vegna óeigingjarns starfs í þágu íbúa á Norðurlandi síðastliðin 20 ár. 

Af öðrum fréttamálum í desember má nefna að Lilla Steinke er Ungskáld Akureyrar 2019, Giljaskóli og Naustaskóli verða réttindaskólar UNICEF og nýtt verklag verður brátt tekið upp á fjölskyldusviði sem er ætlað að hjálpa þolendum að greina frá ofbeldi.

Þá var fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar samþykkt á fundi bæjarstjórnar skömmu fyrir jól. Gert er ráð fyrir jákvæðri afkomu af rekstri A- og B-hluta á næsta ári um 106 milljónir samanlagt.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan