Framsækin stefna um velferðartækni

Motiview er hugbúnaður sem ætlaður er til að hvetja eldra fólk til hreyfingar.
Motiview er hugbúnaður sem ætlaður er til að hvetja eldra fólk til hreyfingar.

Stefna Akureyrarbæjar á sviði velferðartækni var samþykkt í bæjarstjórn á þriðjudaginn. Áhersla er lögð á nýsköpun og tæknilegar lausnir við þróun velferðarþjónustu. Markmiðið er að auka lífsgæði notenda, bæta vinnuumhverfi starfsfólks og nýta betur auðlindir til að mæta mannfjöldaþróuninni.

En hvernig má nota velferðartækni?
Samkvæmt stefnunni er lögð sérstök áhersla á að nota tæknilegar lausnir og aðferðir til að mæta þörfum fólks fyrir:

Samskipti og félagslega þátttöku (t.d. myndsamtöl, dagskipulag og upplýsingar)
Flutning og hreyfigetu (hjálpartæki við daglegar athafnir, snjallari heimili)
Heimavarnir og öryggi (fallskynjarar, öryggishnappar og vöktun)
Eftirlit og lífsgæði (innlit og heimsóknir, þjálfun og eftirfylgd)

„Nota tæknina í verkin og fólkið í samskiptin og tengslin"
Á næstu fimm árum mun velferðarráð Akureyrarbæjar hafa til úthlutunar fjárveitingu sem er ætlað að hvetja til og stuðla að innleiðingu á velferðartækni.
Stjórnendum og starfsfólki er falið að innleiða og nota velferðartækni í mati á þörf fyrir þjónustu og við endurmat. Tekið verði mið af áherslum sem endurspeglast í eins konar slagorði um að „nota tæknina í verkin og fólkið í samskiptin og tengslin.“

Hjá Öldrunarheimilum Akureyrar er lögð rík áhersla á nýsköpun og þar hefur velferðartækni verið á dagskrá nokkur undanfarin ár. „Við höfum verið að innleiða ýmis kerfi, tækjabúnað og úrlausnir fyrir einstaklinga. Hluti af þessu er líka að rafvæða starfsemina eins og hægt er og við erum enn á því ferðalagi,“ segir Halldór Sigurður Guðmundsson, framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar.

Mörg tækifæri til að bæta lífsgæði fólks
Halldór fagnar því að mótuð hafi verið og samþykkt stefna sveitarfélagsins á þessu sviði. „Velferðartækni er sérstakt áhugamál á hinum Norðurlöndunum og hefur verið það um 12 ára skeið með mikilli þátttöku og sérstökum aðgerðum sveitarfélaganna. Nú er Akureyri komið í þann hóp að hafa markað sýn til að vinna eftir. Það er framsækni og til fyrirmyndar,“ segir Halldór.

Halldór S. Guðmundsson

Hver eru helstu tækifærin með velferðatækni til framtíðar? „Við erum rétt að byrja hér á landi og í raun er velferðartækni að byrja að þróast. Á næstu misserum og árum verða miklar breytingar í velferðarþjónustunni og í heilbrigðisþjónustunni vegna tækniframfara,“ segir Halldór.

„Fyrir Akureyrarbæ og starfsemi Öldrunarheimila Akureyrar er alveg ljóst að fjórða iðnbyltingin er að banka upp á og við erum vonandi tilbúin að taka þátt. Tækifærin eru nánast óendanleg og miða öll að bættum lífsgæðum fólks,“ segir Halldór.

Nýtt nám í velferðartækni
Í byrjun þessa árs var í fyrsta sinn hér á landi boðið upp á nám samkvæmt nýrri námskrá í velferðartækni. SÍMEY hélt utan um námið sem var sniðið að starfsfólki í velferðarþjónustu. 15 manns sóttu námið í vor frá búsetusviði Akureyrarbæjar, Öldrunarheimilum Akureyrar og Heilbrigðisstofnun Norðurlands. 

Velferðartækni hefur nú hlotið vottun sem viðurkennd námsleið í framhaldsfræðslunni, sem þýðir að allar símenntunarmiðstöðvar geta boðið upp á námið. Nú á haustönn býður SÍMEY upp á námið öðru sinni, í samvinnu við Öldrunarheimili Akureyrar. 

Fyrsti hópurinn í velferðartækni að loknu náminu í Símey.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan