Frábær árangur í alþjóðlegri hjólakeppni

Frá verðlaunaafhendingunni í dag.
Frá verðlaunaafhendingunni í dag.

Í dag voru veitt verðlaun fyrir þátttöku í aþjóðlegu hjólakeppninni Road Worlds for Seniors. Keppendur í Hlíð og Lögmannshlíð stóðu sig frábærlega og hjóluðu samtals yfir 5.000 kílómetra.

Mikið keppnisskap

194 lið, með 4.333 keppendum frá sjö löndum, tóku þátt í keppninni sem er eins konar heimsmeistaramót eldri borgara í hjólreiðum og hefur staðið í tæpan mánuð. Það hefur verið líf og fjör í sjúkraþjálfun á Öldrunarheimilum Akureyrar að undanförnu og hjólin þéttsetin. Boðið hefur verið upp á aukaæfingar sem hafa verið vel sóttar, enda keppnisskap þátttakenda mikið.

Hjólað er fyrir framan tölvuskjá og þannig geta keppendur slegið þrjár flugur í einu höggi; tekið þátt í keppninni, hjólað sér til heilsubótar og heimsótt fjölda borga um allan heim.

Að keppni lokinni var lið Hlíðar í 5. sæti með 4.338 hjólaða kílómetra. Keppendur í Lögmannshlíð voru töluvert færri en stóðu sig vel og enduðu í 38. sæti.

Keppendur tóku við verðlaunum í dag

Fjöldi manns var samankominn á hátíðlegri verðlaunaafhendingu í Hlíð í dag. Allir þátttakendur fengu verðlaunapening og þeir sem hjóluðu lengst voru heiðraðir sérstaklega. Að lokinni verðlaunaafhendingu var boðið upp á kaffi og kökur. 

Fjóla Ísfeld í Lögmannshlíð hjólaði mest allra á Akureyri, 616 kílómetra, en hún var í 10. sæti í heildarkeppni kvenna sem er glæsilegur árangur. Torfi Leósson hjólaði mest karla í Hlíð, 497 kílómetra, og Jónína Axelsdóttir hjólaði mest kvenna í Hlíð, 238 kílómetra.

Stefna á sigur á næsta ári

Þetta er í þriðja sinn sem keppnin er haldin og annað árið í röð sem Hlíð tekur þátt. Ásta Þorsteinsdóttir sjúkraþjálfari, sem heldur utan um verkefnið, segir að keppnin sé alltaf að verða sterkari og vinsælli. Hátt í tvöfalt fleiri lið séu skráð til leiks en í fyrra og hjóla þurfi miklu meira til að eiga möguleika á sigri. Lið Hlíðar stefnir þó að sjálfsögðu á sigur á næsta ári. „Áhuginn er meiri núna heldur en í fyrra og það er einhvern veginn meiri stemming og meira keppnisskap,“ segir Ásta. 

Hér má sjá nokkrar myndir frá verðlaunaafhendingunni: 

Jónína Axelsdóttir hjólaði mest kvenna í Hlíð Torfi Leósson hjólaði mest karla í Hlíð Fjóla Ísfeld hjólaði mest allra  

Ásta Þorsteinsdóttir segir frá keppninni Keppendur  Þéttsetinn samkomusalurinn í Hlíð Allir þátttakendur fengu glæsilegan verðlaunapening 

Viðurkenningarskjal   Halldór S. Guðmundsson framkvæmdastjóri ÖA stóð kökuvaktina

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan