Fjórða iðnbyltingin og Akureyri til framtíðar

Akureyri. Mynd: María H. Tryggvadóttir
Akureyri. Mynd: María H. Tryggvadóttir

Út er komin ný og áhugaverð skýrsla um fjórðu iðnbyltinguna og tengsl hennar við þróun atvinnulífs, mannfjölda og skipulag Akureyrarbæjar.

Dr. Bjarki Jóhannesson, skipulagsfræðingur, verkfræðingur og arkitekt vann skýrsluna fyrir Akureyrarbæ. Markmiðið var að greina vinnumarkað framtíðarinnar í ljósi tæknibreytinga, aldursskipta íbúaþróun og hvernig þetta hefur áhrif á húsnæðisþörf og skipulagsmál.

Hér er hægt að lesa skýrsluna.

Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er að aldurssamsetning íbúa Akureyrar er að breytast, sem kallar á aukna þörf fyrir framboð af húsnæði fyrir eldri borgara.

Fjórða iðnbyltingin hefur í för með sér sjálfvirknivæðingu og gera spár ráð fyrir því að tölvur og tækni leysi af hólmi stóran hluta núverandi starfa en önnur verði til í staðinn. Þetta hefur áhrif á atvinnulíf á Akureyri, líkt og annars staðar. „Fjórða iðnbyltingin opnar tækifæri til að skapa ný störf fyrir ungt fólk og fjölga í þeim aldursflokki. Til þess þarf að efla fyrirtæki í hátækni og nýsköpun," segir í skýrslunni.

Í skýrslunni er fjallað um áhrif þessa á skipulag bæjarins. Meðal annars kemur fram að eftirspurn eftir húsnæði gæti breyst. Á sama tíma og nauðsynlegt sé að styrkja miðbæinn og efla félagslegt og menningarlegt hlutverk hans, þá telur skýrsluhöfundur að nýir möguleikar skapist á þéttingu byggðar.

Nauðsynlegt að horfa til framtíðar í skipulagsvinnu

Tryggvi Már Ingvarsson, formaður skipulagsráðs Akureyrarbæjar, segir mikilvægt að fá fram skýrslu sem þessa, enda megi vænta mikilla breytinga á næstu árum og áratugum sem þurfi að taka tillit til í skipulagsvinnu. Tryggvi segir að þetta hafi verið rauður þráður í endurskoðun á aðalskipulagi sem tók gildi 2018.

„Í því aðalskipulagi erum við að taka tillit til þeirra samfélagsbreytinga sem nú eiga sér stað með hlutfallslega mestri fjölgun íbúa í eldri aldursbilum. Það húsnæði sem við byggjum næstu áratugi eða svo mun miða fremur að því að uppfylla þarfir eldri kaupenda með aðgengilegum íbúðum í fjölbýli í stað stærri sérbýla. Slíka uppbyggingu sjáum við frekar í nágrenni við miðbæinn og í góðri nálægð við þá þjónustu sem þar er," segir Tryggvi.

Störf án staðsetningar skapa tækifæri

Hann segir stóra áskorun að kortleggja betur þarfir fyrirtækja til framtíðar. „Eins þurfum við að einsetja okkur að skilgreina og markaðssetja Akureyri sem góðan og fjölskylduvænan bæ. Með fjölgun starfa án staðsetningar getum við enn frekar laðað að fólk sem hefur áður þurft að vinna starf sitt á höfuðborgarsvæðinu. Hér er samkeppnisstaða lykilatriðið því ný tækni opnar ekki einungis tækifæri fyrir Akureyri heldur allt landið," segir Tryggvi.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan