Fjöldi athugasemda við tillögu að skipulagsbreytingu

Í vikunni voru lagðar fram til kynningar í skipulagsráði athugasemdir og umsagnir sem bárust við tillögu að breytingu á aðalskipulagi á Oddeyri. Tillagan var kynnt 6. maí og rann athugasemdafrestur út þremur vikum seinna.

Breytingin nær til reits sem afmarkast af Hjalteyrargötu, Kaldbaksgötu, Gránufélagsgötu og Strandgötu. Þetta er hluti af stærra þróunarsvæði þar sem gert er ráð fyrir mikilli endurnýjun. Í tillögunni felst að svæði, sem er að mestu skilgreint sem athafnasvæði, verði breytt í íbúðarsvæði og heimilt verði að byggja sex til átta hæða hús með verslunar- og þjónustustarfsemi á jarðhæð.

68 athugasemdir og fimm umsagnir

Óskað var eftir umsögnum frá nokkrum helstu hagsmunaaðilum og stofnunum sem tengjast breytingunni. Þá voru íbúar sérstaklega hvattir til að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum.

Alls bárust 68 athugasemdabréf frá almenningi og fimm umsagnir, frá hverfisnefnd Oddeyrar, Isavia, Minjastofnun, Norðurorku og Vegagerðinni. Hér er hægt að skoða umsagnir.

Skipulagsráð frestaði afgreiðslu málsins og var sviðsstjóra skipulagssviðs og formanni skipulagsráðs falið að funda með hagsmunaaðilum um framhald málsins.

Tillagan flokkast sem veruleg breyting á aðalskipulagi. Hér má sjá helstu skrefin í átt að slíkri breytingu og hvar þetta mál er statt í ferlinu.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan