Fiskeafmælið og opnun minningarsýningar

Frá opnun minningarsýningar um D.W. Fiske
Frá opnun minningarsýningar um D.W. Fiske

Í dag, 11. nóvember, er haldið upp á fæðingardag velgjörðarmanns Grímseyinga, Bandaríkjamannsins Daniels Willards Fiske, en sá dagur er ávallt haldinn hátíðlegur í Grímsey.

Í tilefni afmælisins hefur minningarsýning um Fiske verið opnuð í flugstöðinni í Grímsey. Það er Sigríður Örvarsdóttir safnafræðingur og hönnuður sem stýrt hefur verkefninu fyrir hönd Akureyrarstofu.

Willard Fiske var prófessor í norrænum málum og hafði dálæti á Íslandi sem hann heimsótti árið 1879. Hann sigldi við norðurströnd landsins, sá þar glitta í Grímsey og heyrði af heillandi lífsbaráttu eyjarskeggja sem vakti áhuga hans. Ekki síst þótti honum merkilegt að heyra af taflmennsku þeirra enda var hann sjálfur mikill skákáhugamaður. Fiske steig aldrei á land í Grímsey þrátt fyrir að hann tæki ástfóstri við eyjuna og sendi í framhaldi Íslandsheimsóknarinnar hverju heimili í Grímsey taflmenn og taflborð.

Nokkru síðar sendi hann bókagjöf til Grímseyjar og varð þannig til lítið almenningsbókasafn sem kallað var Eyjarbókasafnið. Þar að auki lét Fiske sérsmíða og flytja út í eyju tvo forláta skápa utan um bókasafnið. Þessir bókaskápar eru varðveittir í Grímsey og geyma rúmlega tvö hundruð bækur sem Sigríður Örvarsdóttir hefur unnið að því að skrá, en nokkrar þeirra er hægt að berja augum á sýningunni ásamt öðrum munum, myndum og textum sem varpa ljósi á sögu Fiske og áhugaverð tengsl hans við Grímsey.

Minningarsýningin var formlega opnuð í dag en hún er til húsa í flugstöðinni. Þeir sem eiga leið um bygginguna á komandi árum ættu að nota tækifærið og kynna sér sögu þessa merka manns og skoða nokkrar af gjöfum hans til Grímseyinga.

Afmæli Fiske er nokkurs konar þjóðhátíðardagur Grímseyinga. Eftir formlega opnun sýningarinnar fyrr í dag var farið í skoðunarferð suður að vita og endað í félagsheimilinu Múla þar sem litið var á Eyjarbókasafnið sem þar er varðveitt og síðan þáðu gestir veitingar í boði kvenfélagsins Baugs þar sem boðið var upp á heitt súkkulaði og bakkelsi.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan