Farþegaþota NiceAir komin til heimahafnar

Myndir: Skapti Hallgrímsson / Akureyri.net.
Myndir: Skapti Hallgrímsson / Akureyri.net.

Það var söguleg stund þegar Airbus 319 farþegaþota NiceAir lenti á Akureyrarflugvelli í gær. Eliza Reid forsetafrú gaf vélinni nafnið Súlur við hátíðlega athöfn. Eliza flutti ávarp og sömuleiðis Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri.

Í ávarpi sínu sagði Ásthildur meðal annars:

"Akureyri er að stækka og breytast úr bæ í litla borg. Og til þess að bærinn okkar geti haldið áfram að þróast, vaxa og dafna, er afar mikilvægt að allar samgöngur séu eins og best verður á kosið. Með tilkomu millilandaflugs í föstum skorðum til og frá bænum, styrkist lífæð samfélagsins hér, og forsenda skapast fyrir enn frekari vexti Akureyrar, nýjum og sögulegum sigrum svæðisborgarinnar.

Með stofnun flugfélagsins NiceAir er ekki látið skeika að sköpuðu eða rennt blint í sjóinn. Þorvaldur Lúðvík og hans fólk hefur gert ítarlega rannsókn á markaðinum, lagt mat á eftirspurn og reiknað út allar rekstrarforsendur. Undirbúningsvinnan hefur verið mjög fagleg og því er óhætt að segja að hið nýja flugfélag sé reist á traustum grunni.

Hægt og bítandi styrkjast ákveðnir landsbyggðarkjarnar og mér segir svo hugur að nú hafi skapast raunverulegar forsendur til rekstrar öflugs flugfélags hér á Norðurlandi, eins og markaðsrannsóknir Þorvaldar Lúðvíks hafa leitt í ljós.

Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi flugsins fyrir atvinnulífið og fólkið á Akureyri og raunar á Norðurlandi öllu. Viðbygging við flugstöðina, beint flug og stórbættur aðflugsbúnaður, renna styrkari stoðum undir þróun efnahagslífsins á allri landsbyggðinni. Og tækifærin verða enn meiri fyrir kraftmikla frumkvöðla."

Til hamingju, NiceAir.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan