Fallorka lækkar almennt raforkuverð

Stjórn Fallorku ákvað að lækka verð á raforku til almennings um áramót þannig að nýtt verð frá 1. janúar 2021 er 8,08 kr/kWst með vsk. Þrátt fyrir að vísitala neysluverðs hafi hækkað um 3,6% á síðustu 12 mánuðum er ekki talin þörf á að hækka raforkuverð til samræmis.

Sagt er frá þessu á vef Fallorku

Berglind Ósk Guðmundsdóttir, formaður stjórnar Fallorku, segir tvær megin ástæður fyrir þessu. „Annars vegar hefur raforkuframleiðsla í Djúpadalsá og í Glerá gengið vel og hins vegar standa vonir til að heildsöluverð á raforku frá Landsvirkjun muni hækka lítið eða ekkert á þessu ári." Hún segir verulega ánægjulegt að geta boðið raforku til almennings á betri kjörum en á síðasta ári. „Það er von okkar að þetta komi heimilunum vel þar sem að aðrar gjaldskrár hafa hækkað um áramót."

Raforkuframleiðsla í hinni nýju Glerárvirkjun II hefur gengið mjög vel og verið 10-20% yfir þeim áætlunum sem voru gerðar í upphafi. „Virkjunin er mikilvæg fyrir Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið því að hér hefur sárvantað raforku til frekari uppbyggingar. Vissulega vonumst við til að framboðið aukist þegar ný lína Landsnets kemst í gagnið á næstu árum," segir Berglind og bætir við að virkjunin spari einnig fjármuni fyrir Fallorku og Norðurorku vegna þess að rafmagnið kemur beint inn á kerfið hér. „Akureyringar og nærsveitungar eiga þessi félög svo við höfum öll hag af því að þeim vegni vel," segir Berglind.

Framundan eru spennandi verkefni hjá Fallorku. „Helst má nefna þær ánægjulegu fregnir að svæði sem Fallorka hefur rannsakað til raforkuvinnslu með vindorku er meðal þeirra nýju virkjanakosti sem verið er að meta fyrir rammaáætlun 4. Við erum að einbeita okkur að því að horfa fram á veginn og framtíðin kallar vissulega á aukna framleiðslu á grænni orku," segir Berglind.

Fallorka er dótturfélag Norðurorku sem aftur er í eigu Akureyrarbæjar og fimm nágrannasveitarfélaga. Fallorka rekur fjórar vatnsaflsvirkjanir á Eyjafjarðarsvæðinu, þ.e. Glerárvirkjun I og II og Djúpadalsvirkjun I og II. Samanlagt afl þessara virkjana er um 6,5 MW. Rúmlega sjö þúsund heimili á Akureyri og nágrenni kaupa rafmagn frá Fallorku.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan