Færeysk ferða- og atvinnulífssýning í Hofi

Við setninguna í Hofi fluttu Ásthildur og Poul Michelsen, utanríkis-og viðskiptaráðherra Færeyja, áv…
Við setninguna í Hofi fluttu Ásthildur og Poul Michelsen, utanríkis-og viðskiptaráðherra Færeyja, ávörp.

Ávarp flutt við opnun á færeyskri ferða- og atvinnulífssýningu í Hofi miðvikudaginn 19. september 2018.

Utanríkis- og viðskiptaráðherra Færeyja, sendiherra Færeyja á Íslandi, atvinnurekendur, færeyskir sem íslenskir, færeyskt listafólk og matreiðslufólk og aðrir gestir.

Ég býð ykkur velkomin á íslensku því Færeyingar eru líklega eina þjóðin sem skilur tungumálið okkar og við skiljum ykkur – en ég skal þó lofa að tala mjög skýrt.
Milli þessara tveggja eyþjóða, Íslendinga og Færeyinga, eru forn órjúfanleg menningartengsl sem eru jafngömul byggð í löndunum tveimur og er t.d. sagt frá þessum tengslum í Flateyjarbók sem rituð var hér á landi á 13. öld. Þar voru höfðingjarnir tveir, Þrándur í Götu og Sigmundur Brestisson, síður en svo sammála og deildu hart og þaðan er orðtakið "Þrándur í Götu" komið sem lifir enn góðu lífi í máli Íslendinga.

Það er afar ánægjulegt að hingað skuli vera kominn fríður hópur úr færeysku viðskiptalífi, ásamt ráðherra og sendiherra, til að kynna sig, sína vöru og sitt hugvit enda hefur sagan sýnt að við náum vel saman á viðskiptasviðinu. Á Akureyri eru fyrirtæki sem hafa átt mikil viðskipti við Færeyjar, s.s. sjávarútvegsfyrirtækið Samherji sem hefur tengst sjávarútvegi í Færeyjum frá árinu 1994 þegar útgerðarfyrirtækið Framherji aps. var stofnað í félagi við Færeyinga. Kælismiðjan Frost, sem hópurinn heimsótti einmitt núna fyrir hádegi, á í miklum viðskiptum við Færeyjar, það sama gildir um Rafeyri sem hefur verið með stór verkefni þar. Við höfum líka selt Færeyingum matvöru og má þar nefna sölu á kjöti frá Norðlenska, mjólkurvörur frá Mjólkursamsölunni eða MS eins og það er nefnt í daglegu tali og ekki má gleyma því að við flytjum út til ykkar íslenska þjóðarréttinn harðfisk – það mætti því halda því fram að við Íslendingar ættum að sama skapi að versla grindarhvalkjöt af ykkur! Og kannski er það gert nú þegar.

Sjávarútvegur og mikilvægi hans er sannarlega nokkuð sem tengir okkur. Báðar þjóðir hafa lagt mikinn metnað í fiskveiðar og fiskvinnslu og leggja áherslu á hugvit við að nýta aflann betur og að standa sig í umhverfismálum. Það sést t.d. á því úrvali fyrirtækja sem hér tekur þátt og vonandi munu verða hér til ný viðskiptasambönd sem allir hagnast á.

Vinir eru þannig að við leitum til þeirra þegar við þurfum á ráðum og þekkingu að halda. Sveitarfélög hér við Eyjafjörð standa nú frammi fyrir því að skoða kosti og galla fiskeldis og að taka afstöðu til þess hvað gera skuli. Þessa atvinnugrein þekkið þið afar vel og við viljum læra af ykkur og ykkar reynslu. Við viljum vita hverjir kostirnir eru, gallarnir, hvað ber að varast og hvar tækifærin liggja. Þetta er vinasamtal sem við viljum gjarnan eiga við ykkur og kannski má hefja það óformlega þegar við hér í lok dags smökkum á færeyskum bjór og mat.

Orðatiltækið "Líkur sækir líkan heim" er upplagt a nota þegar við ræðum um vinskap Færeyinga og Íslendinga. Okkur finnst gott að heimsækja Færeyjar því að það er svolítið eins og að koma heim en samt eitthvað sem er öðruvísi og ég vona að það sé líka upplifun ykkar þegar þið heimsækið okkur. Við hér á Akureyri viljum auðvitað sjá mun meira af færeyskum gestum. Hér fyrir nokkrum árum þá komu Færingar í beinu flugi þrjú ár í röð til að skíða í Hlíðarfjalli og slíkar heimsóknir mundi ég svo gjarnan vilja sjá meira af.

Á menningarsviðinu eru vinaböndin sterk og við höfum átt mikið og fjölbreytt samstarf. Dæmi um afar metnaðarfulla samvinnu var samstarf fyrr á þessu ári milli Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, Sinfóníuhljómsveitar Færeyja og Norðurlandshússins í Þórshöfn, þar sem haldnir voru alveg einstakir tónleikar með fremsta tónlistarfólki landanna beggja og á sama tíma opnaði í Norðurlandahúsinu myndlistarsýning tveggja myndlistarkvenna sem báðar eru héðan frá Akureyri. Það hefur verið samstarf milli Tónlistarskóla Færeyja og Tónlistarskólans á Akureyri, Listasafnið á Akureyri og Norðurlandahúsið í Færeyjum hafa átt í samstarfi og svo hafa aðdáendur hennar Eivarar Pálsdóttur verið svo heppnir að geta hlustað reglulega á hana flytja sína tónlist á Græna hattinum hér á Akureyri og ég þarf ekkert að lýsa slíkum yndisstundum neitt frekar – þið vitið hversu frábær tónlistarmaður Eivör er.

Ekki má gleyma að Háskólinn á Akureyri, Háskólinn í Færeyjum og fleiri slíkar stofnanir í norðrinu hafa átt í samstarfi m.a. um meistaranám í vestnorrænum fræðum og er það von mín að þau samskipti munu eflast enn frekar. Tækifærin eru klárlega fyrir hendi.

Að síðustu vil ég segja að það er gott að vera Íslendingur víðast hvar á Norðurlöndum en það er alveg sérlega gott að vera Íslendingur í Færeyjum. Í hinum fornu Hávamálum er vináttan m.a. viðfangsefni og ég ætla að enda á að vitna í þann texta ásamt því óska ykkur öllum farsæls dags með nýjum tækifærum og vinskap.

Veistu, ef þú vin átt,
þann er þú vel trúir,
og vilt þú af honum gott geta,
geði skaltu við þann blanda
og gjöfum skipta,
fara að finna oft.