Eyfirsk skjöl birtast á nýjum vef

Snemma árs 2016 hlaut Héraðsskjalasafnið á Akureyri styrk frá Þjóðskjalasafni Íslands til að ljósmynda elstu gjörðabækur sveitarfélaga á starfssvæði sínu. Að þeirri vinnu lokinni hlaut safnið aftur samskonar styrk á vordögum 2017 til að vinna myndirnar og skrá þær fyrir birtingu á vef. Þar að auki hlaut safnið ásamt Héraðsskjalasafninu Þingeyinga og Héraðsskjalasafni Árnesinga styrk til að miðlunar og þróunar á vefviðmóti fyrir skjalavefinn.

Í verkefninu 2016 voru afritaðar 105 bækur frá 9 sveitarfélögum í Eyjafjarðarsýslu, samtals rúmlega 19.700 myndir. Á síðustu mánuðum hefur verið unnið við myndvinnslu og skráningu á þessum myndum. Héraðsskjalavörður stýrði verkinu og sá um skráningu en um ljósmyndun og myndvinnslu sá Eva Dögg Helgadóttir. Samhliða var unnið að þróun vefsíðu til að miðla skjölunum.

Í dag er opnaður nýr vefur á vefsetri Héraðsskjalasafnsins á Akureyri sem er sérstaklega ætlaður til að birta skjöl. Inn á vefinn er kominn tæplega helmingur af þeim bókum sem myndaðar voru og er ætlunin að á næstu mánuðum birtist það sem eftir er.

Á sama tíma birta Héraðsskjalasafn Árnesinga og Héraðsskjalasafn Þingeyinga sínar gjörðabækur á sama hátt. Í þessar bækur er skráð afar áhugaverð saga byggðanna, þær eru meðal þeirra gagna sem notendur skjalasafna hafa mestan áhuga á að skoða. Þar má finna upplýsingar um þróun byggðar, búsetu, búfjáreign, fátækraframfærslu, húsakost, byggingaleyfi og svo mætti lengi telja. Með þessu verkefni er stígið mikilvægt skref í þá átt að safnkostur héraðsskjalasafna verði aðgengilegur á þennan hátt. Þá geta fræðimenn, stjórnsýslan og almenningur skoðað og rannsakað gögn óháð búsetu og opnunartíma safnanna.

Skjalavefur.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan