Ertu efni í rithöfund?

Ritlistasmiðjan Ungskáld 2019 fer fram í Verkmenntaskólanum á Akureyri laugardaginn 2. nóvember frá kl. 9-16. Markmiðið er að efla ritlist og skapandi hugsun hjá ungu fólki á aldrinum 16-25 ára því að kostnaðarlausu. Verkefnið Ungskáld hefur verið við lýði á Akureyri í nokkur ár og er það eina sinnar tegundar á landinu. Að verkefninu standa Akureyrarstofa, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Akureyri, Ungmennahúsið í Rósenborg og Amtsbókasafnið.

Fyrri hluta dags leiðir rithöfundurinn Stefán Máni vinnuna en eftir hádegið verður unnið undir leiðsögn Bryndísar Björgvinsdóttur rithöfundar og lektors við Listaháskóla Íslands. Þátttakendum verður boðið upp á létt hádegissnarl frá kl. 12-13.

Samhliða er efnt til ritlistakeppni sem er opin öllum ungmennum á aldrinum 16-25 ára. Þar verða veitt peningaverðlaun fyrir efstu þrjú sætin. Engar hömlur eru settar á texta, hvorki varðandi efnistök né lengd. Þeir þurfa þó að vera á íslensku. Ritlistakeppnin verður nánar auglýst síðar.

Ritlistasmiðjan laugardaginn 2. nóvember er sem áður segir ókeypis fyrir þátttakendur og þeim ber að sjálfsögðu engin skylda til að skila inn textum í ritlistakeppnina.

Skráning í Ritlistasmiðjuna og nánari upplýsingar á www.ungskald.is.

Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og Akureyrarbæ.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan