Skemmtiferðaskip heimsótt

Frá heimsókn hópsins í skipið í gær. Dimitrios er næstlengst til vinstri.
Frá heimsókn hópsins í skipið í gær. Dimitrios er næstlengst til vinstri.

Hverfisnefnd Oddeyrar og starfsmenn frá umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar fóru í gær um borð í skemmtiferðaskipið Mein Schiff til að fræðast um mengunarvarnir þess og starfsemina um borð.

Í áhöfn skipsins eru um 1.000 manns en farþegar eru um 2.200. Dimitrios Karampastelas umhverfisstjóri skipsins tók á móti hópnum, kynnti þann búnað sem notaður er til mengunarvarna og svaraði fyrirspurnum. 

Í máli Dimitriosar kom fram að svokallaðir „skrúbbar" í hreinsunarbúnaði skipsins vinni á um 99% af brennisteinsinnihaldi í útblæstri þess með þeim árangri að loftmengun er alla jafna sáralítil. Allur úrgangur og rusl frá skipinu er flokkað eftir kúnstarinnar reglum og staðfesti Pétur Ólafsson hafnarstjóri Hafnarsamlags Norðurlands að flokkunin væri til fyrirmyndar. Engu er hent í hafið á siglingum skipsins nema e.t.v. lífrænum matarleifum og það er þá gert á opnum hafsvæðum fjarri mannabyggðum. Þetta gildir um Mein Schiff en skemmtiferðaskip heimsins eru ólík að gerð og með misgóðan mengunarvarnabúnað. Öll þróun við smíði skipanna og tæknibúnað er þó í þá átt að lágmarka mengun. Hafnaryfirvöld og almenningur gera skýra kröfu um minni mengun og skipafélögin vilja allt til þess að vinna að bregðast við þeim kröfum. Að öðrum kosti yrði þeim smám saman gert ókleift að sigla um heimsins höf og koma til hafnar í hinum ýmsu löndum.

Dimitros var spurður um þá staðhæfingu sem víða hefur komið fram að skemmtiferðaskip mengi miklu mun meira en til að mynda flugvélar. Kom fram í svari hans að miðað við farþegafjölda skipanna og það að hér sé í raun um fljótandi samfélag að ræða þá sé mengun á mann líklega minni en þegar aðrir ferðamátar eru notaðir. Fólk sem flýgur á ferðalögum til annarra landa þarf að kaupa gistingu, sækja heim veitingastaði, nota lestar eða bíla, og þannig eru gróðurhúsaáhrifin samanlagt meiri en þegar aðeins er litið til flugferðarinnar sjálfrar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan