Akureyri á Arctic Circle ráðstefnunni

Pallborðsumræður um það hvaða áhrif nærsamfélögin geta haft á stefnumótun stjórnvalda á norðurslóðum…
Pallborðsumræður um það hvaða áhrif nærsamfélögin geta haft á stefnumótun stjórnvalda á norðurslóðum.

Akureyrarbær hefur á undanförnum árum gert sig gildandi í norðurslóðaumræðu og bæjarstjórn samþykkti fyrir skemmstu stefnu um norðurslóðasamstarf. Á ráðstefnunni Arctic Circle sem haldin var í Hörpu í Reykjavík nýverið var bæjarstjórinn á Akureyri með innlegg í tveimur málstofum. Ráðstefnan er ein sú stærsta í heiminum sem tengist norðurslóðamálum en þátttakendur voru um 2.500.

Akureyri hefur þróast í að verða miðstöð norðurslóða á Íslandi. Þar skiptir ekki síst máli að stofnanir eins og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, skrifstofa Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar og skrifstofur CAFF og PAME, sem eru fastir vinnuhópar Norðurskautsráðsins, eru staðsettar á Akureyri. Háskólinn á Akureyri er hluti af Háskóla norðurslóða og starfrækir námsbraut í heimskautarétti. Þá hafa fyrirtæki í bæjarfélaginu stofnað samtök sín á milli, Arctic Services, sem ætlað er að sinna þjónustu við Grænland á sviði iðnaðar og tækni. Samstarfsvettvangur þessara aðila og allra þeirra sem vinna að málefnum norðurslóða á Íslandi er Norðurslóðanetið sem hefur bækistöðvar sínar á Akureyri. Akureyrarbær er aðili að Norðurslóðanetinu.

Akureyrarbær leggur ríka áherslu á virka þátttöku í norðurslóðamálum innanlands sem utan m.a. með aðild að samtökum sem tengjast norðurslóðum. Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri hefur þar af leiðandi verið áberandi í umræðu um norðurslóðamál á erlendum sem innlendum vettvangi. Ísland mun fara með formennsku í Norðurskautsráðinu á árunum 2019-2021 og hefur Akureyrarbæ verið boðið að taka þátt í undirbúningnum.

Á nýyfirstaðinni ráðstefnu um norðurslóðamál, Arctic Circle, var Eiríkur með innlegg í tveimur málstofum. Fyrri málstofan sem hann tók þátt í var skipulögð af Tromsø borg í Noregi en þar fjallaði hann um hvernig Akureyri nálgast sjálfbærni í ferðamennsku. Yfirskrift málstofunnar var We are the Arctic eða Við erum norðurslóðir og var makmiðið með henni að koma á framfæri sjónarmiði bæja og borga á norðurslóðum.

Í síðari málstofunni sem skipulögð var af Institute of the North í Alaska og Centre for International Relations í Noregi tók Eiríkur þátt í pallborði þar sem rætt var um hvaða áhrif nærsamfélögin geta haft á stefnumótun stjórnvalda á norðurslóðum. Fram kom í máli hans að m.a. sé mikilvægt að borgir og bæir á norðurslóðum móti sér stefnu um aðkomu sína að málaflokknum en bæjarstjórn Akureyrar samþykkti sérstaka stefnu um samstarf í norðurslóðamálum nú á haustdögum.

Á ráðstefnunni í Hörpu voru norðurslóðastofnanir sem staðsettar eru á Akureyri mjög áberandi sem og Háskólinn á Akureyri og komu ásamt Akureyrarbæ saman fram undir heitinu Arctic Akureyri.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan