Glerárdalur gerður að fólkvangi

Fjallganga í Glerárdal.
Fjallganga í Glerárdal.

Opinn hátíðarfundur bæjarstjórnar Akureyrar var haldinn í Hofi á 150 ára afmælisdegi Akureyrar þar sem sérstakir gestir voru Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands og Jón Gnarr borgarstjóri Reykjavíkur. Á fundinum voru samþykktar tillögur um að Glerárdalur verði gerður að fólkvangi og um að setja ákveðna upphæð árlega í umhverfisátak næstu fimm árin sem hugsað er í göngu- og hjólastíga, leikvelli og annað sem gerir umhverfið fallegra. Auk samþykktanna voru Jónu Bertu Jónsdóttur og Hermanni Sigtryggssyni veittar sérstakar heiðursviðurkenningar í tilefni af 150 ára afmæli bæjarins.

Hér má sjá samþykktirnar í heild sinni:

Glerárdalur - fólkvangur

2012080081

Lögð fram tillaga um að Glerárdalur verði gerður að fólkvangi.

Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að stefnt skuli að því að hluti Glerárdals verði skilgreindur sem fólkvangur í samræmi við lög um náttúruvernd nr. 44/1999, gr. 55.

Bæjarstjórn samþykkir einnig með 11 samhljóða atkvæðum að gerð verði tillaga til Umhverfisstofnunar um mörk og nýtingarmöguleika fólkvangsins og gerð grein fyrir þeim takmörkunum sem ákvörðun um fólkvang kann að setja Akureyrarbæ sem rétthafa landsvæðisins.

Umhverfisátak

2012080082

Lögð fram tillaga um að setja ákveðna upphæð árlega í umhverfisátak næstu fimm árin. Hugsað í göngu- og hjólastíga, leikvelli og annað sem gerir umhverfið fallegra.

Í tilefni 150 ára afmælis Akureyrarkaupstaðar samþykkir bæjarstjórn með 11 samhljóða atkvæðum að veita allt að hálfum milljarði (500 milljónum króna) í sérstakt umhverfisátak.

Árlega verða settar allt að 100 milljónir króna í þetta sérstaka átak.

Fjárveitingin er ætluð til nýframkvæmda og stofnbúnaðarkaupa á málum sem fyrst og fremst tengjast umhverfismálum í sveitarfélaginu öllu (og einstaka deildum þess) s.s. endurgerð og nýframkvæmd leikvalla, gerð göngu- hjóla- og reiðstíga, fegrun og frágang opinna svæða og torga, skógrækt, grisjun, endurgerð og endurplöntun, frágangi og gerð fólkvanga/útivistarsvæða.

Framkvæmdaráð skal hafa eftirlit með fjárveitingu hvers árs.

Framkvæmdadeild mun gera tillögur að verkefnum og kostnaðarmeta þær. Við gerð framkvæmdaáætlunar hvers árs skal framkvæmdaráð endanlega samþykkja þær framkvæmdir og stofnbúnaðarkaup sem fara á í á ári hverju.

Umhverfisnefnd gerir tillögur til framkvæmdaráðs um einstaka verkefni er lúta að hennar verksviði sbr. samþykkt umhverfisnefndar.

Öðrum nefndum og ráðum er frjálst að koma með tillögur til framkvæmdaráðs.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan