Einfaldara en áður að tilkynna til barnaverndar

Skjáskot af heimasíðunni. Tilkynningarformið að baki gula hnappnum er sérstaklega sniðið að börnum s…
Skjáskot af heimasíðunni. Tilkynningarformið að baki gula hnappnum er sérstaklega sniðið að börnum sem þurfa að hafa samband við barnavernd.

Akureyrarbær hefur gefið út rafræna handbók um verklag og viðbragðsáætlun þegar grunur vaknar um ofbeldi gegn börnum, vanrækslu eða áhættuhegðun barna. Auk þess hafa í fyrsta sinn verið sett upp rafræn tilkynningarform sem auðveldar starfsfólki stofnana, almenningi og ekki síst börnum að tilkynna ofbeldi eða vanrækslu til barnaverndar.

Viðbragðsáætlunin og rafrænu tilkynningarformin eru aðgengileg hér á heimasíðu bæjarins.

Þessi aukna og mikilvæga þjónusta við börn er samstarfsverkefni starfsfólks barnaverndar hjá fjölskyldusviði og verkefnisstjóra barnvæns sveitarfélags hjá Akureyrarbæ. Vinnan hófst í tengslum við innleiðingu á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, en skýrt verklag og aðgengileg tilkynningarform til barnaverndar geta skipti verulegu máli í því ástandi sem nú ríkir í samfélaginu.

Covid-19 faraldurinn hefur víðtæk áhrif og er talin hætta á að aðstæður barna sem veikast standa geti versnað enn frekar. Óöryggi fólks, einangrun og álag á heimilin eykur hættu á heimilisofbeldi og því skiptir miklu máli að gæta að þessum hópi. Þeir sem helst tilkynna til barnaverndar eru leik- og grunnskólar barnanna, frístundastarfsmenn, heilbrigðisstofnanir og lögreglan. Þegar viðvera barna í skóla og frístundum hefur minnkað er hætta á að tilkynningum fækki, ekki vegna þess að ofbeldi eða vanræksla hafi minnkað heldur vegna þess að öryggisnet barna er ekki jafn tryggt og áður.

Það er skylda okkur allra að gera það sem hægt er til að vernda börn í viðkvæmri stöðu og fylgjast enn betur með aðstæðum þeirra en áður.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan