Dagný Linda hætt keppni

DagnyLindaKristjansdottirDagný Linda Kristjánsdóttir, fremsta skíðakona Íslands um árabil, hefur ákveðið að leggja skíðin á hilluna og hætta æfingum og keppni. Ástæðan eru þau þrálátu meiðsli sem Dagný Linda hefur átt við að stríða í vetur á hægri fótlegg og liggur fyrir að hún þarf að fara í aðgerð til þess að freista þess að fá sig góða af þeim. Ekki er hins vegar tryggt að aðgerð myndi skila fullum bata.

„Ég er sátt við að hafa tekið þessa ákvörðun þó það séu mér mikil vonbrigði að geta ekki náð því markmiði, sem ég hafði sett mér, að keppa á Ólympíuleikunum í Vancouver í Kanada árið 2010. Það er ljóst að þau meiðsli sem ég hef átt við að stríða í vetur hafa nú sett verulegt strik í reikninginn.

Á mínum ferli hef ég upplifað margt og haft tækifæri til þess að ferðast til fjölmargra landa vegna æfinga og keppni. Fyrir það er ég afar þakklát. Sá stuðningur sem ég hef fengið frá Skíðasambandinu, Akureyrarbæ, fjölmörgum fyrirtækjum, Afrekssjóði ÍSÍ, Skíðafélagi Akureyrar, sjúkraþjálfurum og læknum að ógleymdri fjölskyldu minni hefur verið mér ómetanlegur og án hans hefði ég ekki keppt á skíðunum í öll þessi ár. En meiðsli hafa tekið sinn toll. Ég var frá æfingum og keppni meira og minna í tuttugu mánuði á árunum 2004 og 2005 vegna hnémeiðsla og nú bætast við þessi meiðsli, sem hafa gert mér mjög erfitt fyrir við æfingar og keppni í allan vetur. Að öllu samanlögðu taldi ég því rétt á þessum tímapunkti að láta hér staðar numið, þó svo að ég viðurkenni það fúslega að sú ákvörðun var mér erfið,“ segir Dagný Linda Kristjánsdóttir.

Dagný Linda Kristjánsdóttir á sérlega glæsilegan feril að baki. Hún keppti á sínu fyrsta FIS-móti árið 1996 og síðan hefur mikið vatn til sjávar runnið.

Nokkrir punktar um skíðaferil Dagnýjar Lindu:

 • Hún hefur keppt á 316 alþjóðlegum mótum í þrettán þjóðlöndum.
 • Tekið þátt í tvennum Ólympíuleikum, annars vegar í Salt Lake City í Bandaríkjunum árið 2002 og hins vegar í Tórínó á Ítalíu árið 2006.
 • Keppt á þremur heimsmeistaramótum – í St. Anton í Austurríki árið 2001, St. Moritz árið 2003 og Åre í Svíþjóð árið 2007.
 • Keppt á 31 heimsbikarmóti – það fyrsta var í bruni í Lenzerheide í Sviss árið 2002.
 • Keppt á 39 Evrópubikarmótum.
 • Verið í einu af fimm efstu sætunum á 87 alþjóðlegum mótum, þar af verið í 1. sæti á 35 mótum, 2. sæti á 17 mótum og  3. sæti á 12 mótum.
 • Hefur átján sinnum orðið Íslandsmeistari á skíðum, fyrst árið 1997.
 • Hefur keppt á norska, sænska og þýska meistaramótinu og verið í einu af fimm efstu sætunum á þeim öllum.
 • Besti árangur á stórmótum er 23. sæti í bruni og risasvigi á Ólympíuleikunum í Tórínó árið 2006 og 19. sæti í samanlögðu bruni og svigi á HM í St. Moritz í Sviss árið 2003.
 • Sjö sinnum hefur Dagný Linda verið valin skíðakona ársins.
 • Þrisvar sinnum hefur Dagný Linda verið valin Íþróttamaður Akureyrar.


Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan