Bylting í þjónustu við börn

Eitt af viðtalsherbergjum Barnahúss á Akureyri.
Eitt af viðtalsherbergjum Barnahúss á Akureyri.

Nýtt útibú Barnahúss á Akureyri hefur staðist væntingar um stórbætta þjónustu við börn utan höfuðborgarsvæðisins og fjölskyldur þeirra. Á tæplega hálfu ári hafa 63 meðferðarviðtöl verið tekin þar, tvö könnunarviðtöl og tíu skýrslutökur fyrir dómi.

Fyrsta útibúið frá Barnahúsi í Reykjavík var opnað á Akureyri þann 1. apríl. Barnahús er rekið af Barnaverndarstofu, en útibúið var opnað í samvinnu við lögregluna á Norðurlandi eystra, barnaverndarnefnd Eyjafjarðar og dómstólasýsluna.

Fyrsta flokks aðstaða

Í útibúinu er tekið á móti börnum sem hafa orðið fyrir ofbeldi og þeim veitt meðferð. Jafnframt er þar sérútbúin aðstaða með fyrsta flokks búnaði fyrir rannsóknarviðtöl og könnunarviðtöl við börn. „Útibúið á Akureyri veitir Norðurlandi öllu betri þjónustu, þar sem mun styttra er fyrir börnin að koma í skýrslutökur eða könnunarviðtöl heldur en að fara til Reykjavíkur,“ segir Ólöf Ásta Farestveit, forstöðumaður Barnahúss.

„Óhætt er að segja að útibúið hafi staðist allar þær væntingar sem starfsmenn Barnahúss höfðu og er gott fyrir sérfræðinga Barnahúss að hafa sérútbúna og barnvænlega aðstöðu fyrir meðferðarviðtölin,“ segir Ólöf Ásta.

Sérútbúin aðstaða til rannsóknarviðtala.

Betri þjónusta og hagræðing 

Vilborg Þórarinsdóttir, forstöðumaður barnaverndar hjá fjölskyldusviði Akureyrarbæjar, tekur í sama streng. Ljóst sé að þörfin hafi verið til staðar. „Notendur þjónustunnar hafa látið vel af aðstöðunni sem er bæði hlýleg og með góðu aðgengi. Samstarf fjölskyldusviðs og sérfræðinga Barnahúss hefur gengið vel og ríkir mikill einhugur um að láta allt ganga upp. Það má sannarlega segja að markmið með stofnun útibúsins hafi náðst,“ segir Vilborg.

Þjónustan er með þessu færð til barnanna og fjölskyldna, sem þýðir styttri ferðalög og minna rask. Þá hafi þetta í för með sér ótvíræða hagræðingu fyrir barnaverndina bæði í tíma og kostnaði. „Vegna þess að barn og aðstandandi, starfsmaður barnaverndar og aðrir þurfa ekki lengur að ferðast um langan veg, en í stað þess kemur einn sérfræðingur frá Reykjavík hingað norður,“ segir Vilborg.

Vilborg Þórarinsdóttir, forstöðumaður barnaverndar, hélt erindi við formlega opnun útibúsins.  Viðtalsherbergi

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan