Breytt skipulag vegna aðflugsbúnaðar

Á fundi bæjarstjórnar Akureyrar 20. febrúar komu til umræðu tillögur skipulagsráðs að svörum við athugasemdum sem Isavia hefur gert vegna skipulags við Akureyrarflugvöll eins og það birtist í Aðalskipulagi Akureyrarkaupstaðar 2018-2030.

Lögð var fram tillaga að svohljóðandi svari vegna athugasemdar Isavia sem var samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum:

Til þess að Akureyrarflugvöllur uppfylli kröfur sem alþjóðlegur flugvöllur þarf að setja upp ILS búnað fyrir blindflug. Hluti þess búnaðar kemur austan suðurenda flugbrautar, og þarf að girða þann hluta af og framlengja girðingu við suðurenda flugbrautarinnar til suðurs út að vesturkvísl Eyjafjarðarár. Það lokar núverandi göngu- og reiðstíg, sem þá verður að færa. Hinsvegar opnast tækifæri við uppbyggingu nýrrar leiðar samhliða lagningu jarðstrengs yfir vesturkvísl Eyjafjarðarár.

Bæjarstjórn samþykkir að breyta aðalskipulagsuppdrættinum á þá leið að lega göngu- og reiðstígs verði breytt á skipulagsuppdrætti til samræmis við tillögu að legu jarðstrengs.

Ingibjörg Ólöf Isaksen formaður umhverfis- og mannvirkjasviðs segir að mikilvægt sé að vinna þessi mál hratt og í samráði við alla sem hagsmuna eiga að gæta: "Fundað hefur verið tvisvar sinnum með forsvarsmönnum hestamannafélagsins Léttis sem eru reiðubúnir að vinna með okkur að lausnum til framtíðar. Óskað hefur verið eftir fundi með forsvarsmönnum Landsnets auk þess sem farið hefur af stað kostnaðargreining og greining á þeim möguleikum sem eru í stöðunni. Það er ljóst að til tímabundinnar lokunar á stígnum mun koma á haustmánuðum samhliða uppsetningu aðflugsbúnaðarins en það er markmið okkar að ný göngu- og reiðleið opni sem fyrst."

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan