Blómstrandi iðju- og félagsstarf

Iðju- og félagsstarf er mikilvægur þáttur í starfi Öldrunarheimila Akureyrar. Starfið er að fara á fullt eftir sumarið og er dagskráin afar fjölbreytt.

Tilgangurinn er fyrst og fremst að viðhalda getu og auka færni íbúa í Hlíð og Lögmannshlíð. Miklu máli skiptir að hafa eitthvað fyrir stafni og geta stundað þá iðju sem fólk hefur áhuga á. Það hefur í för með sér vellíðan og jákvæð áhrif á heilsu.

Bingó, leikfimi, kaffihlaðborð, söng- og spilastundir er brot af því sem er reglulega á dagskrá í Hlíð og Lögmannshlíð. Íbúum gefst einnig kostur á að vinna í handverki, auk þess sem rík áhersla er lögð á skipulagt hópastarf á hverju heimili.

Starfið er í sífelldri þróun og er reglulega eitthvað nýtt á boðstólnum. Í Lögmannshlíð voru til dæmis nýlega teknir upp mánaðarlegir íbúafundir þar sem farið er yfir ýmis mál. Þá verða í vetur haldnir matarklúbbar á fimmtudögum þar sem heimilisfólk kemur saman og eldar.

Í Hlíð verður í vetur lögð áhersla á ákveðin þemu í hverjum mánuði. Þá verða settar upp myndir og ýmsir munir sem tengjast þemanu hverju sinni. Auk þess verður Hlíð í samstarfi við Minjasafnið á Akureyri, en í því felast reglulegar heimsóknir með muni safnsins.

Fólk er hvatt til að kynna sér þessa fjölbreyttu starfsemi. Frekari upplýsingar um iðju- og félagsstarf eru á vefsíðu Öldrunarheimila Akureyrar.

   

  

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan