Betri afkoma en áætlun gerði ráð fyrir

Sumardagur á Akureyri.
Sumardagur á Akureyri.

Árshlutareikningur fyrir A- og B-hluta Akureyrarbæjar fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2018 var lagður fram í bæjarráði í dag. Árshlutauppgjörið er óendurskoðað.

Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta á fyrri hluta ársins var jákvæð um 207,4 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að rekstrarhalli yrði 571,7 milljónir króna á tímabilinu. Afkoma samstæðunnar á fyrri hluta ársins er því 779,1 milljón krónum betri en áætlun gerði ráð fyrir.
Rekstrarniðurstaða A-hluta á fyrri hluta ársins var neikvæð um 69,6 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að rekstrarhalli yrði 808,3 milljónir króna á tímabilinu. Afkoma A-hluta er því mun betri en áætlun gerði ráð fyrir.

Tekjur samstæðunnar námu samtals 12.491 milljón krónum en áætlun gerði ráð fyrir að tekjur yrðu 12.095 milljónir króna. Skatttekjur voru 5.727 milljónir króna sem er 331 milljón krónum umfram áætlun eða 6,13%. Tekjur frá Jöfnunarsjóði námu 1.530 milljónum króna sem er 125 milljónum umfram áætlun. Aðrar tekjur voru 5.234 milljónir króna sem er 60 milljónum króna undir áætlun.

Rekstrargjöld samstæðunnar fyrir afskriftir voru samtals 10.984 milljónir króna sem er 123 milljónum króna undir áætlun. Laun og launatengd gjöld námu 7.011 milljónum króna en áætlun gerði ráð fyrir 7.131 milljón krónum. Annar rekstrarkostnaður var 3.678 milljónir króna sem er 96 milljónum króna undir áætlun. Fjármagnsgjöld, nettó, námu 559 milljónum króna sem er 198 m.kr. undir áætlun. Afskriftir námu 714 milljónum króna samanborið við 765 milljónir króna í áætlun.

Samkvæmt sjóðsstreymi samstæðunnar nam veltufé frá rekstri 1.303 milljónum króna eða 10,4% af tekjum. Fjárfestingahreyfingar námu 2.061 milljón krónum og fjármögnunarhreyfingar 2.486 milljónum króna. Afborganir lána námu 337 milljónum króna. Ný langtímalán voru 2.784 milljónir króna. Langstærsti hluti lánanna var tekinn vegna uppgjörs á lífeyrisskuldbindingum við Brú lífeyrissjóð. Handbært fé var 2.976 milljónir króna í lok júní.

Fastafjármunir námu 43.061 milljón krónum og veltufjármunir 5.815 milljónum króna. Eignir námu samtals 48.876 milljónum króna samanborið við 45.705 milljónum króna á árslok 2017. Eigið fé var 20.386 milljónir króna en var 20.181 milljónir króna um síðustu áramót. Langtímaskuldir og skuldbindingar námu 21.477 milljónum króna en námu 18.812 milljónum króna í lok síðasta árs. Skammtímaskuldir voru 7.013 milljónir króna en voru 6.711 milljónir króna um sl. áramót.

Veltufjárhlutfall var 0,83 á móti 0,86 í lok síðasta árs. Eiginfjárhlutfall var 41,7% í lok júní.

Akureyrarbær breytti á árinu 2018 reikningshaldslegri meðferð á leigusamningum um hjúkrunarheimili milli ríkisins og sveitarfélaga í takt við álit reikningsskilaráðs frá því í mars 2018.

Samanburðarfjárhæðum frá fyrra ári hefur verið breytt til samræmis en áhrif þessara breytinga eru óveruleg.

Akureyrarbær, árshlutareikningur 1.1.-30.6.2018

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan